Um 500 manns studdu tónlistarkennara

18.11.2014 - 19:27
Mynd með færslu
Samningafundur í kjaradeilu tónlistarskólakennara og sveitarfélaga stóð yfir í allan dag. Fjöldi manns sýndi málstað kennaranna stuðning í verki.

Eftir ríflega tólf klukkustunda fund í gær settust deilendur aftur á fund hjá ríkissáttasemjara klukkan ellefu í morgun. Þar var gagntilboð tónlistarskólakennara rætt sem þeir lögðu fram í gær. Fundinum lauk klukkan fjögur og hefur annar fundur verið boðaður klukkan eitt á morgun.

Meðan á samningafundinum stóð söfnuðust tónlistarskólakennarar á Akureyri saman, og sýndu kennarar í Menntaskólanum og Verkmenntaskólanum á Akureyri þeim stuðning. Þar var framinn gjörningur þar sem tónlistin var jörðuð, og kór söng án þess að nokkuð heyrðist í honum.

Tónlistin fékk hins vegar að hljómar í Hörpu, þar sem um 500 manns mættu á baráttufund til stuðnings tónlistarkennurum. Þar fengu kennararnir stuðning úr ýmsum áttum.

„Það er nú eiginlega bara ólýsanlegt og við erum auðvitað bara rosalega þakklát fyrir að fólk styður okkar sanngjörnu kröfu um launaleiðréttingu", segir Sigrún Grendal, formaður Félags tónlistarskólakennara.

Sigrún vill ekkert gefa út um hvernig viðræðurnar ganga en segir gagntilboð tónlistarkennara frá í gær enn í umræðunni: „Við höfum verið að ræða það í dag og munum halda áfram að gera það á morgun og svo er komið að samninganefnd sveitarfélaga að koma fram með eitthvað tilboð eftir þær samræður".