Ullarverslanir sakaðar um hönnunarstuld

30.08.2012 - 10:51
Mynd með færslu
Fyrirtækið Drífa hefur krafist þess að fyrirtækin The Viking og Álafoss taki úr sölu tvær vörutegundir sem fyrirtækið segir að séu óeðlilega líkar sinni vöru. Framkvæmdarstjóri Drífu segir fyrirtækið hafa tapað umtalsverðum fjármunum á málinu og ætlar að leita réttar síns.

Í yfirlýsingu sem Drífa sendi frá sér, en það framleiðir ullarfatnað undir merkjunum Icewear og Norwear, kemur fram að verslanirnar hafi fengið frest til þriðjudagsins 28.ágúst til að taka umræddar vörutegundir úr verslunum sínum. Þær hafi ekki brugðist við þeim óskum og ætlar fyrirtækið því að leita réttar síns.

Ágúst Þór Eiríksson, framkvæmdarstjóri Drífu, sagði í samtali við vef RÚV að honum þyki þetta ekki réttlátt, verslanirnar tvær séu að undverðleggja vörurnar og  því sé þetta umtalsvert tap fyrir fyrirtækið, hann segir að vörurnar sem um ræði hafi notið talsverðra vinsælda hjá ferðamönnum undanfarin ár. „Við erum með lögmann okkar í málinu sem hefur sent þeim bréf,“ segir Ágúst en hér að neðan má sjá samanburð á vörunum sem Drífa ehf sendi frá sér.