Tyrkneskum blaðamönnum sleppt úr haldi

26.02.2016 - 05:27
epa05044741 People chant anti-government slogans and hold Cumhuriyet newspaper as they gathered in front Turkish newspaper Cumhuriyet publishing house, in support of Can Dundar and Erdem Gul who were arrested by an Istanbul court in Istanbul, Turkey, 27
Handtöku þeirra Dündar og Gul var harðlega mótmælt í Tyrklandi.  Mynd: EPA
Ritstjóra og skrifstofustjóra tyrkneska blaðsins Cumhuriyet var í morgun sleppt úr haldi eftir þriggja mánaða fangavist. Tvímenningarnir voru sakaðir um að bera ábyrgð á því að ljóstrað hafi verið upp um ríkisleyndarmál á vefsíðu blaðsins sem þeir stýra og ákærðir fyrir að tilheyra hryðjuverkasamtökum, njósnir og ólögmæta birtingu leynigagna.

Ástæðan var röð ljósmynda sem birt var á vef Cumhuriyet og sýndi svo ekki var um villst að flytja átti frá Tyrklandi til sýrlenskra uppreisnarhópa í vöruflutningabílum tyrknesku leyniþjónustunnar.

Handtakan vakti mikla reiði, jafnt innan Tyrklands sem utan. Voru tyrknesk stjórnvöld harðlega gagnrýnd og sökuð um að virða prentfrelsið og sjálfstæði fjölmiðla að vettugi.

Stjórnarskrárdómstóll Tyrklands virðist á svipaðri línu og úrskurðaði að handtaka þeirra hefði verið ólögmæt og að brotið hefði verið á stjórnarskrárvörðum rétti þeirra til frelsis og öryggis, og einnig á tjáningarfrelsi þeirra og frelsi fjölmiðla. Dómstóllinn var skipaður 15 dómurum; 12 dæmdu blaðamönnunum í vil en 3 í mót.

Þeim Can Dündar, aðalritstjóra, og Erdem Gul, skrifstofustjóra blaðsins, var ákaft fagnað þegar þeir yfirgáfu Silviri-fangelsið í útjaðri Istanbúl og gengu út í frelsið, þar sem ættingjar, vinir, stuðningsfólk og vinnufélagar þeirra tóku á móti þeim.

Dündar sagði réttarhöldin hafa snúist um fjölmiðlafrelsi. „Við fengum frelsi en meira en 30 starfsbræður okkar sitja enn í fangelsi. Ég vona að þessi dómur greiði einnig leið þeirra út í frelsið.“  Hét Dündar því að halda áfram að berjast fyrir frelsi tyrkneskra fjölmiðla „þangað til þessi þrælakista er orðin að safni,“ sagði hann, og benti á fangelsið að baki sér.