Tvö fyrirtæki á Grundartanga beitt dagsektum

18.02.2016 - 13:26
Mynd með færslu
 Mynd: Kastljós  -  Rúv
Umhverfisstofnun hefur gert tugi athugasemda og beitt tvö fyrirtæki dagsektum, vegna mengunar. Þá hefur Vinnueftirlitið gert athugasemdir við öryggisbúnað hjá öðru fyrirtækinu. Formaður Umhverfisvaktarinnar við Hvalfjörð gagnrýnir að umhverfisvöktun á Grundartanga sé á forræði stóriðjuveranna sjálfra.

Umhverfisstofnun hefur gert hátt í þrjátíu athugasemdir við starfsemi málmendurvinnslu GMR á Grundartanga á innan við þremur árum, vegna frávika sem talin eru brot á starfsemi fyrirtækisins. Fjallað var um málið í Kastljósinu í gær. 

Málmendurvinnslan sætir nú 50 þúsund króna dagsektum vegna ítrekaðra vanefnda fyrirtækisins á því að koma mengunarvörnum í viðunandi horf. Þar að auki olli starfsemi fyrirtækisins rafmagnstruflunum hjá notendum á svæðinu, sem fyrirtækið kom í lag eftir athugasemd frá RARIK.

Ítrekuð afskipti af öðru fyrirtæki

Þá hefur Umhverfisstofnun sömuleiðis gert fjórtán athugasemdir við starfsemi fyrirtækisins Kratusar á Grundartanga, sem vinnur ál úr álgjalli, vegna frágangs og geymslu á hættulegum efnum á lóð. Fyrirtækið var beitt dagsektum um tíma, sem var síðar frestað eftir úrbætur. Þá hefur fyrirtækið ráðist í frekari úrbætur, eftir að Umhverfisstofnun hótaði að leggja á frekari dagsektir.

Þar að auki gerði Vinnueftirlit ríkisins athugasemdir við öryggisbúnað í verksmiðjunni árið 2013, sem Kratus tilkynnti síðar um að hefði verið komið í lag. Vinnueftirlitið hefur ekki sannreynt það, en áformar að fara í verksmiðjuna sem og málmendurvinnslu GMR vegna afskipta Umhverfisstofnunar af starfsemi fyrirtækisins. Stjórnarformaður beggja fyrirtækja er Eyþór Arnalds.

Gagnrýnir fyrirkomulag umhverfisvöktunar

Ragnheiður Þorgrímsdóttir, formaður Umhverfisvaktarinnar við Hvalfjörð, segir að samtökin hafi ítrekað varað við því að umhverfisvöktun á svæðinu sé á forræði stóriðjuveranna sjálfra.

„Í fyrsta lagi þá leggja þau til hvað skuli vaktað og hvernig og síðan ráða þau mannskap í það. Þau útbúa skýrslu, eða láta verkfræðistofu gera það fyrir sig, og í þessari síðustu skýrslu um umhverfisvöktun þá er ekkert sem kemur fram um að það sé ekki í lagi hjá GMR eða Kratus.“

Í tilkynningu frá Sigurði Ágústssyni, framkvæmdastjóra GMR, segir að brugðist hafi verið við athugasemdum Umhverfisstofnunar og unnið sé að frekari útbótum. Hann sá sér ekki fært að veita fréttastofu viðtal vegna málsins.