Tveir stærstu skjálftar hrinunnar í nótt

24.08.2014 - 06:04
Mynd með færslu
Mikil skjálftavirkni hefur verið í Bárðarbungu og Dyngjujökli í nótt og hefur skjálftavirknin ekki sýnt nein merki þess að það fari að draga úr henni. Laust upp úr miðnætti varð jarðskjálfti sem mældist 5,3 og annar um 5 klukkan hálf sex í morgun.

Stærri skjálftinn, upp úr miðnætti, er sá langstærsti síðan skjálftavirknin hófst fyrir átta dögum. Skjálftinn er jafnframt sá stærsti síðan í Gjálpargosi 1996. Skjálftinn varð þó ekki til að auka óróann og ekki hefur orðið vart gosóróa í nótt. Stærstu skjálftarnir eru flestir í Bárðarbunguöskjunni en flestir eru skjálftarnir í Dyngjujökli. Jarðskjálftamiðstöðin EMSC í Evrópu metur stærðina á seinni stóra skjálftanum 4,9 en Veðurstofan á 5,1. Það er næst stærsti skjálfti yfirtandandi hrinu. 

Gunnar B. Guðmundsson, jarðeðlisfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, telur að askjan kunni að vera að aðlaga sig breytingum á kvikuþrýstingi. Hann segir að um samgengnisskjálfta kunni að vera að ræða. Mögulega kunni meiri kvika að vera á leið inn í innskotið og fóðra berggagnginn sem nær nú langt norður undir Dyngjujökul.

Ríkislögreglustjóri ákvað eftir fund vísindaráðs almannavarna í gærkvöld að enn skyldi starfað á neyðarstigi. Staðið verður við allar rýmingar og lokanir sem voru ákveðnar í gær. Það verður gert alla vega þar til staðan hefur verið endurmetin upp úr hádegi. Þá hefur Veðurstofan gefið út að áfram gildi litakóði rauður fyrir flug vegna áframhaldandi skjálftavirkni og gliðnunar. Allt blindflug er bannað í grennd við jökulinn.