Tunglfarinn Mitchell látinn

06.02.2016 - 00:46
Bandaríski tunglfarinn Edgar Mitchell lést í gær, 85 ára aldri. Hann varð sjötti maðurinn til þess að stíga fæti á tunglið þegar hann fór með Apollo 14. fyrir sléttum 45 árum síðan.

Mitchell er einn tólf manna sem stigið hafa fæti á tunglið. Með honum í för 5. febrúar 1971 voru þeir Alan Shepard Jr., sem var fyrsti Bandaríkjamaðurinn til þess að fara upp í geim, og Stuart Roosa. Roosa lést 1994 og Shepard 1998.

Mitchell kom til Íslands árið 1967 ásamt fleiri geimförum á vegum NASA til þess að undirbúa tunglferðir. Mitchell talaði um dvölina á Íslandi í ævisögu sinni og sagði hana með eftirminnilegri æfingum þjálfunar sinnar. „Þetta var dularfullur og hálf óraunverulegur staður, ólíkur öllu sem ég hef áður séð á ferðum mínum,“ segir í ævisögu hans.

Í tunglferðinni söfnuðu þeir 40 kílóum af tunglgrjóti og gerðu ýmsar tilraunir. Mitchell hætti störfum hjá NASA ári síðar og helgaði yfirnáttúrulegum fyrirbærum starfsferil sinn að því loknu. Hann kom víða fram og talaði um að fljúgandi furðuhlutir frá öðrum plánetum hafi heimsótt jörðina. Hann sagðist þó aldrei hafa séð neinn slíkan sjálfur.

NASA minnist Mitchells með myndbandi með hápunktum ferils hans hjá stofnuninni.

 

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV