Tugmilljóna tjón á vegum í vatnsveðrinu

05.01.2016 - 17:05
Mynd með færslu
 Mynd: Á Mjóafjarðarvegi  -  Mynd: Vegagerðin
Tugmilljóna króna vatnsskemmdir urðu á vegum á Austurlandi í óveðrinu sem gekk yfir 28. og 30. desember. Skemmdir urðu mjög víða bæði vegna mikillar úrkomu, hláku og ágangs sjávar. Fram kemur í frétt á vef Vegagerðarinnar að frekari skemmdir gætu átt eftir að koma í ljós í vor.

„Miklar skemmdir urðu á til dæmis Helgustaðavegi þar sem malarslitlagið fór mjög illa. Vattarnesvegur fór í sundur á þremur stöðum og vegurinn við Andapollinn á Reyðarfirði fór einnig í sundur. Við brúna yfir Eskifjarðará sem og á Hrútaá í Reyðarfirði fór malarefni undan brúarundirstöðum og klæðingu vegarins. Dalsá í Fáskrúðsfirði gekk upp að vegi og skemmdi vegfláana. Þá féll aurskriða yfir veginn í Grænafelli á Reyðarfirði. […] Umtalsverðar skemmdir urðu á Seyðisfjarðarvegi beggja megin í Fjarðarheiði, Hringvegi í Skriðdal, Skriðdalsvegi, Jökuldalsvegi í Hrafnkelsdal, Borgarfjarðarvegi um Vatnsskarð eystra og Fljótsdalsvegi. […] Þá urðu einnig umtalsverðar skemmdir á Norðfjarðarvegi um Fagradal, við Eskifjörð, um Oddsskarð og líkt og nefnt hefur verið á Norðfirði, á Mjóafjarðarvegi, Helgustaðarvegi og Vattarnesvegi, Suðurfjarðavegi innan við Fáskrúðsfjörð, á Hringvegi um Breiðdalsheiði, í Breiðdal og við Breiðdalsvík, Norðurdalsvegi í Breiðdal,  Hringvegi í Berufirði, Álftafirði og við Hvalnes. Auk þess urðu skemmdir á heimreiðum víða á umræddum svæðum. Þá urðu einnig skemmdir á Axarvegi í Berufirði og á Hringvegi við Hornafjörð,“ segir á vef Vegagerðarinnar. 

Sjá fleiri myndir á vef Vegagerðarinnar. 

Mynd með færslu
Rúnar Snær Reynisson
Fréttastofa RÚV