Trump tapaði illa í Washington D.C. og Wyoming

epa05206239 US businessman and Republican presidential hopeful Donald J. Trump speaks as retired Republican presidential hopeful Ben Carson (not pictured) announces his endorsement of Trump during a press conference at the Mar-A-Lago club in Palm Beach,
 Mynd: EPA
Donald Trump fékk slæma útreið í forkosningum repúblikana í Wyoming og höfuðborginni Washington í nótt, eftir afar gott gengi að undanförnu. Marco Rubio, öldungadeildarþingmaður frá Flórída, sigraði í Washington, þar sem hann fékk ríflega 37% atkvæða. John Kasich, ríkisstjóri í Ohio, varð annar með 35,5% en Trump þriðji með tæp 14% atkvæða. Í Wyoming varð Trump einnig í þriðja sæti, með enn lægra hlutfall atkvæða á bak við sig, eða 7,2%. Þar var það Ted Cruz sem vann yfirburðasigur.

Cruz, sem er öldungadeildarþingmaður fyrir Texasríki, fékk ríflega 66% atkvæða en Rubio, sem varð annar, 19,5%. Bæði ríki eru tiltölulega fámenn og því fáir kjörmenn í húfi. Rubio fékk 10 af 19 kjörmönnum höfuðborgarinnar, Kasich 9 en Trump og Cruz engan. Cruz fær aftur á móti 9 skuldbundna kjörmenn frá Wyoming, þeir Rubio og Trump fá einn hvor, en einn kjörmaður til viðbótar er óskuldbundinn. 

Í kjörmönnum talið skipta þessi úrslit því ekki miklu máli og þau þykja heldur ekki gefa neina afgerandi vísbendingu um hvað í vændum er fyrir frambjóðendurna á þriðjudaginn kemur, þegar kosið verður í fimm mun fjölmennari ríkjum, sem gefa mun fleiri kjörmenn. Þá ganga repúblikanar til forkosninga í Flórída, Illinois, Missouri, Norður-Karólínu og Ohio.

Í Ohio, heimaríki Kasichs, og Flórída, þar sem Rubio á sinn heimavöll, er sá háttur á að sá sem flest atkvæði fær hirðir alla kjörmennina, í stað þess að þeim sé skipt hlutfallslega á milli frambjóðenda eins og tíðkast víðast hvar annars staðar. 

Trump er enn með afgerandi forystu í kapphlaupinu um að verða forsetaefni repúblikana, þrátt fyrir úrslitin í kvöld. Hann hefur mætt vaxandi mótbyr síðustu daga, jafnt úr röðum repúblikana sem demókrata, og á föstudag neyddist hann til að fresta framboðsfundi í Chicago eftir að slagsmál brutust út á fundarstað milli fylgjenda hans og mótmælenda. Fylgjendur keppinauta hans fögnuðu úrslitum næturinnar og telja þau til marks um að vindurinn sé að snúast, sínum mönnum í hag en Trump í óhag. Trump og hans fólk blása á slíkt tal og segja sigur í þessum fámennu ríkjum aldrei hafa verið í kortunum. 

 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV