Trump ógni friði og efnahagslegri uppbyggingu

06.03.2016 - 17:29
epa04646747 German Chancellor Angela Merkel (R) and German Minister of Economics and Energy and Vice Chancellor of Germany, Sigmar Gabriel, arrive for a meeting of the German Cabinet in Berlin, Germany, 04 March 2015. One of the topics of the meeting are
Sigmar Gabriel ásamt Angelu Merkel, kanslara Þýskalands.  Mynd: EPA  -  DPA
Donald Trump er ógn við frið, velmegun og efnahagslega framþróun. Þetta sagði efnahagsmálaráðherra Þýskalands í dag. Trump þykir líklegastur til að verða forsetaefni repúblikanaflokksins í forsetakosningunum í Bandaríkjunum síðar á árinu.

Sigmar Gabriel, efnahags- og orkumálaráðherra Þýskalands og varakanslari landsins, greindi frá þessu í ítarlegu viðtali við Die Welt í dag. Ummælin þykja varpa ljósi á auknar áhyggjur evrópskra stjórnmálamanna af niðurstöðum bandarísku forsetakosninganna, sem fram fara í nóvember á þessu ári.

Gabriel bar Trump saman við Marine le Pen, leiðtoga frönsku Þjóðflykingarinnar, og Geert Wilders, leiðtoga Frelsisflokks Hollands, og sagði þremenningana eiga það sameiginlegt að vera hægri sinnaðir „popúlistar" sem ógni ekki aðeins friði og félagslegu jafnvægi, heldur einnig efnahagslegri uppbyggingu. Trump telji fylgismönnum sínum trú um að Bandaríkin þurfi ekki á samvinnu annarra þjóða að halda, og ali á hræðslu við útlendinga.

Trump gagnrýndi nýlega Angelu Merkel, Þýskalandskanslara, fyrir linkind í málefnum flóttamanna. Alltof mörgum þeirra hafi verið veitt hæli í Þýskalandi og hefur Trump spáð því að stefna Þjóðverja í innflytjendamálum leiði til óeirða og uppþota í landinu innan tíðar.

Merkel sagði í samtali við Bild am Sonntag að ummæli Trumps væru ekki svara verð. Hún bar hins vegar lof á Hillary Clinton, sem sækist eftir því að verða forsetaefni Demókrata vestanhafs. 

Trump þykir enn líklegastur til að verða forsetaefni repúblikana, þrátt fyrir að Ted Cruz hafi unnið sigur í forkosningum frambjóðenda flokksins í Kansasríki og Maine í nótt. 

 

Mynd með færslu
Guðmundur Björn Þorbjörnsson
Fréttastofa RÚV