Trump neitaði að svara fréttamanni - myndband

11.01.2017 - 21:20
Þingnefndir Bandaríkjaþings leggja nú mat á það hvort skipaðir ráðherrar í stjórn Donalds Trumps séu hæfir til að gegna embættum sínum. Sjálfur hélt verðandi forseti sinn fyrsta blaðamannafund frá því að hann náði kjöri þar sem hann neitaði að svara spurningum tiltekinna blaðamanna.

Ráðherraefnin sem Donald Trump hefur skipað verða að skila inn ýmsum gögnum til þingnefndanna, til að mynda um skattaskil sín og mögulega hagsmunaárekstra. Auk þess þurfa þeir að svara spurningum sem snúa að hæfi þeirra til að gegna embættunum valdamiklu. Einhverjum hinna verðandi ráðherra hefur verið legið á hálsi fyrir að vera reynslulausir, hafa óviðeigandi tengsl við atvinnulífið og jafnvel fyrir kynþáttafordóma.

Sú er allavega raunin með Jeff Sessions, verðandi dómsmálaráðherra Bandaríkjanna, en um skipan hans í embætti stendur hvað mestur styr. Sessions var saksóknari í Alabama á níunda áratugnum en fékk ekki embætti alríkisdómara vegna rasískra ummæla sinna. Sessions nýtti þó tækifærið í gær til að sverja af sér allar ásakanir um kynþáttahatur eða fordóma.

Rex Tillerson, verðandi utanríkisráðherra Bandaríkjanna, kom svo fyrir nefndina í dag. Þar komu meðal annars til tals tölvuárásir Rússa í aðdraganda nýafstaðinna forsetakosninga og viðurkenndi Tillerson að hægt væri að leiða líkum að því að Vladimir Pútin hefði staðið að baki árásunum. 

Það sama var uppi á teningnum þegar Donald Trump hélt sinn fyrsta blaðamannafund sem verðandi forseti fyrr í dag. Hann sagði Rússa sannarlega ábyrga fyrir tölvuárásunum en engu að síður sé það á stefnuskránni að reyna að vingast við Pútín.

Trump þvertók hinsvegar fyrir að Rússar byggju yfir upplýsingum sem gætu reynst honum skaðlegar og fordæmdi fjölmiðla sem haldi slíku fram. Þannig neitaði hann að taka við spurningu frá fréttamanni CNN, sem birt höfðu fréttir af málinu eins sjá má í myndbandinu hér að neðan. Fréttamaðurinn reynir að fá að bera upp spurningu en Trump segist ekki ætla að virða hann viðlits, hann vinni hjá fölskum fjölmiðli.

Birta Björnsdóttir
Fréttastofa RÚV