Trump aflýsti fundi vegna mótmæla og slagsmála

epa05206950 Protestors against Businessman and Republican presidential candidate Donald Trump are escorted out of the University of Illinois at Chicago Pavilion before a Trump rally in Chicago, Illinois, USA, 11 March 2016. Residents go to the polls to
Frá fundinum í Chicago. Mótmælendur voru úr ýmsum áttum, hér má sjá tvo sem kenna sig við „Múslima á móti Trump“.  Mynd: EPA
Donald Trump sá sig í kvöld tilneyddan að aflýsa framboðsfundi í Chicago af öryggisástæðum, eftir að átök brutust út milli stuðningsmanna hans og fjölda mótmælenda sem safnast höfðu saman á fundarstað. Í yfirlýsingu frá kosningastjórn Trumps segir að ákvörðunin hafi verið tekin eftir fund með lögreglu. Fjölmennur hópur mótmælenda kom saman utan við íþróttahöll Illinois-háskólans nokkrum klukkustundum áður en fundurinn átti að hefjast, og hittu þar fyrir enn fleiri stuðningsmenn hans.

Grunnt var á því góða milli hópanna og ítrekað kom til smáryskinga. Enn hitnaði í kolunum eftir að byrjað var að hleypa fólki inn í höllina.  

Fréttastöðin CNN áætlar að allt að 10.000 manns hafi verið í salnum þegar upp úr sauð og slagsmál brutust út milli stuðningsfólks og mótmælenda, sem veifuðu fánum og kyrjuðu slagorð til stuðnings Bernie Sanders, keppinautar Hillary Clinton um að verða frambjóðandi demókrata í forsetakosningunum í haust. Slegist var víðs vegar um salinn og fjölmargir lögreglumenn, gráir fyrir járnum, gengu á milli og vísuðu fólki á dyr í stórhópum. 

Einnig mótmælt í St. Louis

Mótmælendur höfðu sig einnig mjög í frammi á framboðsfundi Trumps í St. Louis í Missouri-ríki fyrr um daginn og voru 32 þeirra handteknir áður en yfir lauk. Höfðu þeir uppi mikil hróp og framíköll undir ræðu Trumps, sem sagði framkomu þeirra til skammar.

Kjaftshögg við hæfi

Á fimmtudag var stuðningsmaður Trumps, karlmaður hátt á áttræðisaldri, kærður fyrir líkamsárás eftir að nokkur myndbönd voru birt á Netinu, þar sem hann sást kýla mótmælanda á framboðsfundi í Norður-Karólínuríki. Trump hefur tjáð sig um það mál og sagt framgöngu stuðningsmanns síns „við hæfi.“ 

 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV