Traust bankans ræðst af viðbrögðum hans

14.03.2016 - 18:29
Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, segir að traust til stjórnar Landsbankans ráðist af viðbrögðum stjórnar við erindi Bankasýslunnar. Bankasýslan vill að bankinn geri grein fyrir því hvernig hann hyggist bregðast við þeim skaða sem Borgunarmálið hafi haft á traust og trúverðugleika bankans.

Bíður svara bankaráðs Landsbankans

Bankasýslan segir að það hafi verið röng og óskiljanleg ákvörðun hjá Landsbankanum að selja hlut í kortafyrirtækinu í lokuðu ferli, og rökstuðningur bankans fyrir söluferlinu sé ófullnægjandi. Fjármálaráðherra fagnar því að Bankasýslan hafi farið að tilmælum hans um að fá allar upplýsingar um málið upp á borðið. Hann bíður svara bankaráðs Landsbankans við erindi Bankasýslunnar en telur að bankinn endurheimti    traust með tíð og tíma.

Ekki með neinar traustsyfirlýsingar

En ber Bjarni  traust til núverandi bankastjóra og bankaráðs Landsbankans? „Ég ætla ekki að vera með neinar traustyfirlýsingar gagnvart fólki sem ég hef ekkert með að gera að ráða eða reka, ekki neitt. Við erum með sérstaka stofnun sem hefur síðan valnefnd og velur inn í stjórnir bankana. Stjórnir bankanna bera ábyrgð á ráðningunni. Ég skal hins vegar taka fulla ábyrgð á öllum þeim sem ég skipa í stöður eða ræð til starfa."

En er ekki eðlilegt að spyrja fjármálaráðherra að því hvort æðsta stjórn ríkisbankans njóti trausts?

„Það ræðst alfarið af því hvernig bankaráðið bregst við stöðu eins og þeirri sem hér er uppi. Hvernig þeir njóti trausts í framhaldinu" segir Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra.
 

 

 

Mynd með færslu
Kristján Sigurjónsson
Fréttastofa RÚV
Ægir Þór Eysteinsson
Fréttastofa RÚV