Tónlistarskólinn í Reykjavík í vanda

17.11.2014 - 13:21
Mynd með færslu
Þórunn Guðmundsdóttir, skólastjóri Tónlistarskólans í Reykjavík, segir að gjaldþrot vofi yfir skólanum um næstu mánaðamót. Finni ríki og borg ekki lausn á bráðavanda skólans vegna nemenda á framhaldsstigi blasi grafalvarleg staða við. Fleiri tónlistarskólar í Reykjavík glími við svipaða erfiðleika.

„Við stöndum frammi fyrir þeim bráðavanda að það er hugsanlegt að við eigum ekki fyrir launum um næstu mánaðmót - þ.e. að við getum ekki greitt starfsmönnum laun", segir Þórunn. 

Og hvaða þýðingu hefur það? 

„Við getum nátturulega ekki haldið áfram að starfa ef við getum ekki greitt laun, þannig að er ekki hægt að kalla það bara gjaldþrot".

Eru fleiri skólar í Reykjavík sem standa frammi fyrir þessu? 

„Það eru nokkrir skólar í Reykjavík. Vandinn er dálítið mismunandi eftir skólum hvað þetta varðar. Þetta fer eftir því hve hátt hlutfall nemenda stundar nám á framhaldsstigi, vegna þess að framhaldsstigið hefur verið gríðarlega vanfjármagnað og hefur verið í þrjú og hálft ár frá því að samkomulag um eflingu tónlistarnáms var gert í maí 2011. Þá hefur í raun vandi þessara skóla sem eru með hátt hlutfall nemenda á framhaldsstigi aukist ár frá ári". 

Hvað er til ráða? Hvað vilt þú að gert verði?

„Mér finnst eðlilegast að ríkið og sveitarfélögin kæmu að þessu saman. Reyndar hefur það verið þannig undanfarin ár að ríkið hefur lagt fram ákveðna fjárupphæð samkvæmt þessu samkomulagi. Öll sveitarfélög önnur en Reykjavík hafa brúað þetta bil sem hefur vantað upp á að kennslukostnaðurinn sé greiddur að fullu", segir Þórunn Guðmundsdóttir.