Tónlistarkennarar skrifuðu undir samning

25.11.2014 - 05:42
Mynd með færslu
Samninganefndir tónlistarkennara og sveitarfélaganna skrifuðu undir samning eftir langa samningalotu í húsakynnum Ríkissáttasemjara um klukkan hálfsex í morgun. Sigrún Grendal, formaður Félags tónlistarkennara, segir að verkfallið hafi tekið á en hún sé sátt við nýjan samning.

Hún segir að kennsla hefjist strax í dag í tónlistarskólum. Samningurinn verður nú borinn undir félagsmenn og á niðurstaða úr atkvæðagreiðslu þeirra að liggja fyrir 8. desember.

Sigrún segir að skrifað hafi verið undir samning til skamms tíma og hann innihaldi ekki miklar kerfisbreytingar. „Þetta er alltaf málamiðlun og tók svolítið á. Við vorum að reyna að fá launaleiðréttingu, vorum búin að dragast aftur úr. Við tókum nokkur skref í þá átt núna og nú bara að sjá hvað félagsmenn segja,“ segir Sigrún. 

Sigrún segir að það hafi ekki verið skrifað undir á grundvelli nýs tilboðs frá samninganefnd sveitarfélaganna sem kynnt var fyrir helgi. Samninganefndirnar hafi tekið snúning og farið nýja leið. Nýju tillögurnar hafi komið þeim á sporið en ekki hafi verið byggt á þeirri vinnu.