Tónlistarkennarar fara yfir nýtt tilboð

20.11.2014 - 12:17
Mynd með færslu
Tónlistarkennarar fara nú yfir tilboð frá samninganefnd sveitarfélaganna. Þeir búast við að til tíðinda dragi í deilunni í þessari viku, annað hvort komist skriður á viðræðurnar eða upp úr slitni.

Tónlistarkennarar og viðsemjendur þeirra mættu til samningafundar hjá ríkissáttasemjara á ellefta tímanum í morgun. Fundur deilenda í gær stóð í fimm klukkustundir. Hádegishlé var gert á fundinum rétt fyrir klukkan tólf og þráðurinn verður tekinn upp að nýju klukkan eitt.

Sveitarfélögin lögðu fram tilboð á fundi síðasta mánudag og sama dag lögðu tónlistarkennarar fram gagntilboð. Samninganefnd sveitarfélaganna svaraði gagntilboðinu á fundinum í morgun og er samninganefnd tónlistarkennara að fara yfir það núna.

Samninganefndarmenn tónlistarkennara sem fréttastofan ræddi við fyrir hádegi sögðust búast við að til tíðinda drægi í deilunni á allra næstu dögum, annað hvort kæmust viðræður á skrið eða að upp úr slitnaði.

Verkfall tónlistarkennara hefur nú staðið í fjórar vikur, en það nær til um 500 félaga í Félagi tónlistarskólakennara, sem samþykktu verkfallsboðun með yfirgnæfandi meirihluta atkvæða. Tónlistarkennarar segjast vilja njóta sömu kjara og aðrir kennarar, sem þeir geri alls ekki núna.