Tónlistarkennarar fá ekki sambærileg kjör

06.10.2014 - 09:13
Mynd með færslu
Atkvæðagreiðslu tónlistarkennara um vinnustöðvun þeirra lýkur í dag. Verði vinnustöðvun samþykkt hefst hún miðvikudaginn 22. október. Sigrún Grendal, formaður félags tónlistarkennara, segir það því miður svo að kjör tónlistarkennara séu ekki sambærileg kjörum annarra kennara.

Atkvæðagreiðslu tónlistarkennara um vinnustöðvun þeirra lýkur í dag. Verði vinnustöðvun samþykkt hefst hún miðvikudaginn 22. október. Sigrún Grendal, formaður félags tónlistarkennara, sagði í Morgunútgáfunni í morgun að því miður væri það svo að kjör tónlistarkennara væru ekki sambærileg kjörum annarra kennara. 
„Þetta er svolítið óvenjulegt og einkennilegt í okkar augum, því að framganga viðsemjenda okkar í þessum samningum, hún er eiginlega á skjön við þeirra eigin megin samningsmarkmið, sem jú kveða á um jafnrétti  jafnrétti í launasetningu,“ segir Sigrún. Hún var gestur í Morgunútgáfunni á samtengdum Rásum eitt og tvö í morgun, ásamt Þórði Árna Hjaltested, formanni Kennarasambands Íslands.

Þórður Árni segir kennara almennt dragast aftur úr í launakjörum á vinnumarkaði. „Það er bara staðreynd að kennarar virðast alltaf dragast afturúr, og það kemur alltaf að einhverjum þolmörkum þar sem að menn verða þá að stíga fram og krefjast bóta og krefjast þess að það sé lagfært,“ segir Þórður og bendir á vinnustöðvun framhaldskóla- og grunnskólakennara og verkfallsboðun leikskólakennara í vetur. „Ástæðan er sú að það virðist ekki vera að þetta launaskrið sem oft er talað um, og meira að segja Seðlabankinn gerir ráð fyrir í sínum útreikningum, að það nær ekki inn í skólakerfið og kjarasamninga kennara.“