Töluverðir áverkar á líki Birnu

Mynd með færslu
 Mynd: Eggert Þór Jónsson  -  RÚV
Lík Birnu Brjánsdóttur var með töluverða áverka, sagði Urs Wiesbrock, sérfræðilæknir í réttarmeinafræði, þegar hann gaf skýrslu í réttarhöldunum yfir Thomasi Møller Olsen, fyrstur vitna eftir hádegi. Hann sagði að nef Birnu hefði verið útflatt og nefbein brotið. Áverkarnir voru þess eðlis að ólíklegt þykir að verkfæri eða barefli hafi verið beitt þegar Birna var barin. Slíkt tæki hefði skilið eftir sig skýr form sem ekki var að finna á Birnu.

Urs Wiesbrock er sérfræðilæknir í réttarmeinafræði frá Kiel. Hann gefur skýrslu þar sem Páll Rúnar M. Kristjánsson, verjandi Thomasar, óskaði svara við nokkrum spurningum. Wiesbrock hefur áður gefið skýrslu fyrir íslenskum dómstóli í morðmáli. Til hans var leitað þegar rannsakað var morðið á Karli Jónssyni á Egilsstöðum árið 2013. Friðrik Brynjar Friðriksson var dæmdur í sextán ára fangelsi fyrir það morð. 

Wiesbrock setti ákveðna fyrirvara við svör sín við nokkrum spurninganna sem voru lagðar fyrir hann þar sem hann var ekki viðstaddur þegar sýni voru tekin og sá vettvanginn ekki með eigin augum. Að auki hafi verið búð að afmá verksummerki í bílnum.

Áverkar og blæðing

Wiesbrock sagði að Birna hefði verið með áverka á hægra efra augnloki og að á vörum hennar hafi verið stakir áverkar á yfirborði húðar. Dökk svæði sáust á enni Birnu en óvíst var hvort það væri eftir áverka eða væru líkblettir. Hann sagði líka að blæðing hefði sést undir húð, undir höfði hægra megin og undir hnakka auk annarra áverka. 

Lík Birnu bar þess merki að hún hefði velkst um í sjó sagði Urs og bætti við að hún væri með áverka sem báru þess merki að hún fengið högg, og þrýstiáverka beggja megin á hálsi. Urs sagði að áverkarnir væru aðallega hægramegin. 

Mynd með færslu
 Mynd: Eggert Þór Jónsson  -  RÚV
Urs Wiesbrock í Héraðsdómi Reykjaness áður en hann gaf skýrslu.

Áverkar veittir með vinstri hnefa

Wiesbrock sagði að á grundvelli aðstæðna og ummerkja í bílnum verði að teljast líklegast að notaður hafi verið hnefi en ekki olnbogi. Einnig að ekki hafi verið sparkað í hana.

„Fyrst kom högg sem olli sári og svo fylgdu fleiri högg sem dreifðu blóði,“ sagði Wiesbrock þegar hann lýsti því hvernig árásin hefði verið, miðað við þau gögn sem fundust í bílnum og rannsókn á áverkum Birnu.

Wiesbrock sýndi myndir úr bílaleigubílnum og sagði að blóðdropar á mælaborði og sólskyggni yfir ökumannssætinu væru slettuummerk. „Þetta eru blóðslettur sem verða til eftir að gerandinn hefur slegið, kippir að sér hendinni og gerir sig reiðubúinn fyrir næsta högg.“ Hann sagði að fræðilega hefðu blóðdroparnir geta mynast í högginu en líklega væru þeir of ofarlega til að það ætti við rök að styðjast. „Þegar öllu er á botninn hvolft eru þetta líklega ummerki eftir hnefahögg með vinstri hendi í aftursæti bílsins þegar henni er kippt til baka eftir högg.“

Verjandi Thomasar spurði í gær nokkuð út í áverka á úlnlið vinstri handar Nikolajs Olsens. Thomas lét liggja að því í skýrslugjöf sinn í gær að Nikolaj bæri ábyrgð á hvarfi Birnu.

Wiesbrock sagðist hafa gert tilraun í bíl sögu tegundar. Hún hafi leitt það í ljós að útilokað væri að nota hægri höndina vegna mótstöðu.

Óvíst hvort gerandi var örvhentur eða rétthentur

Wiesbrock vísaði líka til blóðs í lofti bílsins. Hann sagði það líklega vera eftir höggáverka og sagði að ef þetta væru blóðferlar hefði áverkinn verið veittur með hnefa hægri handar. 

Túlka má niðurstöðurnar þannig að báðum höndum hafi verið beitt, sagði Wiesbrock. Hann sagði einnig hugsanlegt að Birna hafi verið skölluð en ekkert væri hægt að staðhæfa um það. Wiesbrock sagði ekki hægt að svara spurningunni um hvort gerandinn hefði verið rétthentur eða örvhentur.

Ekki sjálfgefið að áverkar séu á geranda

Aðspurður hvort gerandinn hafi sjálfur fengið áverka í árásinni sagði Wiesbrock að svo þyrfti ekki að vera. Þannig myndi högg sem lenti á andliti ekki valda áverka á geranda en högg sem lenti á nefi eða munni gæti valdið misalvarlegum áverka. 

Wiesbrock sagði að áverki sem yrði til við þessar aðstæður gæti horfið á einum til tveimur dögum. Hann skoðaði mynd af hnúum Thomasar. Wiesbrock sagði þá bera merki um einhvers konar áverka en erfitt væri að segja til um það nákvæmlega hvernig þeir væru.

Páll Rúnar, verjandi Thomasar, sýndi Wiesbrock mynd af hnúum Nikolajs. Lögregla spurði ekki út í þá áverka við yfirheyrslur í janúar, að því er fram kom í skýrslugjöf í gær. Páll hefur hinsvegar sýnt þeim áhuga í gær og í dag. Wiesbrock sagði erfitt að fullyrða hvort þarna væri um höggáverka að ræða. Þá væri ólíklegt að fimm dögum eftir árásina væri húðroðinn með þeim hætti sem sást á myndinni af Nikolaj, ef áverkarnir væru af völdum árásarinnar.

Fréttin var uppfærð klukkan 14:22.