Tollaafsláttur bílaleigubíla 3,6 milljarðar

17.03.2017 - 20:30
Tollaafsláttur innfluttra bílaleigubíla nam 3,6 milljörðum króna á síðasta ári. Til stendur að afnema afsláttinn 1. janúar 2018. Samkvæmt greinagerð um akstur og öryggi ferðamanna er 20 prósent af akstri einkabíla á síðasta ári talinn vera bílaleigubíla.

 

Samkvæmt upplýsingum frá tollstjóra voru 8.800 bílaleigubílar fluttir inn. Veittir eru tollaafslættir af bílum sem ætlaðir eru til útleigu í minnst 15 mánuði og samkvæmt tollstjóra nam afslátturinn á bæði vörugjaldi og virðisaukaskatti á síðasta ári 3,6 milljörðum króna. Til stendur að afnema afsláttinn 1. janúar 2018.

Í greinargerðinni Akstur og öryggi erlendra ferðamanna er áætlað að 960 þúsund ferðamenn hafi nýtt sér bílaleigubíla á Íslandi árið 2016 eða rúmlega helmingur ferðamanna og er það tvisvar sinnum meira en árið 2014.

Talið er að ferðamenn hafi að meðaltali ekið bílaleigubílum 1700 kílómetra á meðan þeir dvöldu á landinu, en það er lengra en hringvegurinn.

Samkvæmt skýrslunni var heildarakstur erlendra ferðamanna lengstur í júlí og ágúst. Alls er talið að ferðamenn hafi ekið bílaleigubílum 540 milljónir kílómetra á landinu árið 2016, miðað við að þrír séu saman í bíl. Það er eins og 700 sinnum til tunglsins og til baka. Akstur erlendra ferðamanna á bílaleigubílum er talinn hafa verið um 20 prósent af öllum akstri einkabíla á síðasta ári.