Tólfan óttast ekki auglýsingabann á EM

19.01.2016 - 11:58
Formaður Tólfunnar, stuðningsmannaliðs íslenska karlalandsliðsins í fótbolta, segist ekki óttast auglýsingabann á Evrópumótinu í Frakklandi í sumar. Samkvæmt því eru áfengisauglýsingar, eins og á búningum Tólfunnar, stranglega bannaðar á mótinu. Undirbúningur hópsins er í fullum gangi. Hann fékk þakkir fyrir háttvísi frá borgarstjóra Amsterdam eftir Hollandsleikinn. Nú vinnur hann að því að finna þrjú „Ölver“ í Frakklandi.

Rætt var við þrjá stjórnarmenn Tólfunnar í Kastljósi, þá Benjamín Hallbjörnsson formann, varaformanninn Svein Ásgeirsson og stjórnarmanninn Andra Þór Ómarsson.

Um 600 félagar eru skráðir í Tólfuna en mun fleiri taka þó þátt í starfi hópsins á leikjum karlalandsliðsins í fótbolta. Og rétt eins og hjá landsliðinu sjálfu stendur nú yfir undirbúningur fyrir stóru stundina; Evrópumótið í fótbolta í Frakklandi eftir hálft ár. 146 dagar eru í brottför Tólfumanna. 147 dagar í fyrsta leik.

Hið paríska Ölver

„Við erum búnir að vera að vinna í því að finna okkur veitingastaði til að vera á og höfum verið í góðu sambandi við ferðamálayfirvöld í þessum borgum. Markmiðið er að finna okkar Ölver á þessum stöðum,“ sagði Andri Þór í þættinum. Tólfan varð til árið 2007. Þá þóttu menn frekar brjálaðir en bjartsýnir ef þeir gerðu ráð fyrir því að fylgja liðinu á stórmót. Og það er að mörgu að hyggja. 

Hópurinn þéttur

Fast að tíunda hverjum Íslendingi gæti farið á þrjá leiki liðsins í riðlakeppninni í Frakklandi. Tuttugu og sjö þúsund miðar voru merktir Íslendingum í sérstakri forsölu sem lauk í gær. Strax í desember fór Andri Þór inn á miðasölukerfi UEFA og pantaði sér þar miða og fékk sérstakt hópnúmer.

Félagar í Tólfunni, og aðrir sem vildu fylgja hópnum, gátu látið það númer fylgja með miðasölupöntunum sínum. Með því móti var hægt að tryggja að hópurinn dreifðist ekki um allan völl. Tólfan getur því orðið jafn þétt og til dæmis í Hollandi þar sem íslenskir áhorfendur yfirgnæfðu þá hollensku á heimavelli.

Einn Íslendingur á við tíu aðra

„Við höfum engar áhyggjur af því að drukkna á móti Portúgölum til dæmis. Vellirnir eru vissulega stórir, en við höfum reynsluna frá Amsterdam. Fimm þúsund Íslendingar mættu þar 50 þúsund Hollendingum á pöllunum. Þar áttu þeir hollensku ekki séns,“ sagði Benjamín formaður Tólfunnar.

Strangar auglýsingareglur

Klara Bjartmarz, framkvæmdastjóri KSÍ, sagði frá því í viðtali á Bylgjunni á dögunum, að strangar reglur giltu um allar auglýsingar á Evrópumótinu. Búningar liðsins, pennar þjálfara og læknistöskur mættu til dæmis ekki vera merkt vörumerkjum fyrirtækja. Jafnvel nafn framleiðenda mætti ekki vera of stórt á búningum liðsins.  

Til verndar „réttum“ auglýsendum

Tilgangurinn er ekki sá að draga úr áreiti eins og margir gætu haldið; lágmarka auglýsingamennskuna í sjálfri íþróttinni. Nei, ástæðan er fyrst og fremst sú staðreynd að Evrópska knattspyrnusambandið hefur þegar selt auglýsingarnar fyrirtækjum sem hyggjast nýta sér athyglina sem mótið fær. Það rýri verðgildi slíkra samninga, sem ekki eru verðlagðir í neinum smáaurum, ef vörumerki annarra skyggja á vörumerki þeirra sem samið hefur verið við. 

Tólfutreyjurnar á grensunni

Og þetta bann gæti jafnvel orðið til að torvelda fjármögnun Tólfunnar. Félagið hefur selt félagsmönnum búninga og á þeim eru auglýsingar frá skandinavískum áfengisframleiðenda. Treyjurnar, sem hafa verið staðalbúnaður Tólfumanna og litað stúkur víða um álfuna bláum lit íslenska liðsins, gætu brotið í bága við reglur Evrópumótsins.

UEFA hefur nefnilega sett reglur sem banna hópum að merkja sig auglýsingum, sérstaklega áfengisauglýsingum. Slíkar auglýsingar eru reyndar bannaðar með lögum hér á landi líka. Tólfumenn segjast þó ekki örvænta. Og vonast til að málið leysist. „Menn eiga að passa sig á því að vera ekki að oftúlka þetta regluverk,“ segir Benjamín sem vonast til þess að búningarnir verði ekki vandamál.

Krúttlegar bullur

Í viðtalinu við Klöru fyrir viku kom fram þýskir kollegar hennar hefðu brugðist við fregnum af fjölda stuðningsmanna íslenska liðsins með eftirfarandi orðum: „En krúttlegt.“  Hinir þýsku enda margfalt fleiri. Tólfumenn gangast fúslega við því. „Já, erum við ekki voða krúttleg bara,“ segir Benjamín.

„300 þúsund manna þjóð á leið á stórmót í fótbolta. Ég held að það sé krúttlegt." 

Það hefur vakið nokkra athygli að þrátt fyrir að þúsundir Íslendinga hafi fylgt íslenska liðinu og Tólfunni á leiki undanfarinna ára hafa þær utanferðir gengið stóráfallalaust, sem ekki hefur alltaf verið sjálfsagt í hópferðum landans út fyrir landsteinana. Tólfumenn hafa enda notið þess heiðurs að hljóta sérstakar þakkir yfirvalda fyrir framkomu sína.

Heiðursborgarar Amsterdam

Borgarstjórinn í Amsterdam kom þannig á framfæri sérstökum þökkum til íslenska stuðningsmannaliðsins eftir leikinn gegn Hollendingum. 5000 Íslendingar þóttu til slíkrar fyrirmyndar í borginni. Að sögn Tólfumanna er félagsskapurinn enda ekki stéttarfélag eða regnhlífasamtök æsinga- eða ofbeldismanna. Bullur séu þeir ekki.

„Menn kunna að skemmta sér. Þetta fór vel fram í Hollandi og annars staðar þar sem við höfum verið. Markmiðið er fyrst og síðast að hafa gaman,“ sagði Sveinn varaformaður. Tólfumenn liggja ekki í dvala milli leikja. Allra síst núna. Hópurinn hittist reglulega. Og tekur jafnvel lagið. Það er spenna í hópnum.

- Og menn ekkert að verða leiðir á Ferðalokum?

„Hvenær eru Ferðalok,“ spurði þá Benjamín formaður sposkur, í Kastljósi.

 

 

Mynd með færslu
Helgi Seljan
Fréttastofa RÚV
Kastljós