Töf á aðalmeðferð í máli Birnu

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Útlit er fyrir að ekki verði hægt að yfirheyra Thomas Frederik Møller Olsen á þriðjudaginn eins og áætlað var. Thomas er ákærður fyrir að hafa orðið Birnu Brjánsdóttur að bana þann 14. janúar síðastliðinn. Enn er beðið eftir matsgerð þýsks réttarmeinafræðings. Hinsvegar er stefnt að því að taka skýrslu af skipverjum á Polar Nanoq en þeir verða að öllum líkindum á landinu á þriðjudag.

Greint var frá þessu á vef mbl.is.

Þrátt fyrir þá meginreglu í meðferð mála sem þessara að hefja eigi aðalmeðferð með því að taka skýrslu á sakborningi segir Kolbrún Benediktsdóttir, varahéraðssaksóknari, að það sé það heppilegasta í stöðunni að taka skýrslu af skipverjum Polar Nanoq meðan þeir verði á landinu. Þannig verði beðið með að hefja aðalmeðferð á málinu þrátt fyrir að skýrslutaka verði hafin.

„Það er ákveðin heimild til þess að taka skýrslur af vitnum sem fyrirséð er að verði ekki á staðnum þegar kemur að aðalmeðferð,“ segir hún í samtali við fréttastofu. Stefnan sé að taka skýrslu af skipverjum sama hvort aðalmeðferð verði hafin í málinu.

„Það er best að hafa sem mesta samfellu í málarekstrinum. Það er verra ef ákærði gefur skýrslu löngu áður en málið er flutt.“

Verjandinn hafi óskað eftir dómkvöddum matsmönnum og verið sé að vinna þau gögn. „Það er skýringin á því að þetta dregst.“ Beðið er eftir matsgerð frá þýska réttarmeinafræðingnum Urs Oli­ver Wies­brock. Hlut­verk rétt­ar­meina­fræðings í mál­inu er að svara sex spurn­ing­um sem liggja fyr­ir, segir Kolbrún, og verður Urs Oliver þannig dómkvadd­ur matsmaður í málinu.