Tjaldar úti við og í húsarústum

07.03.2016 - 20:24
Ungur Suður-Kóreumaður freistar þess að ganga hringveginn þrátt fyrir kulda og snjókomu. Hann hefur tjaldað í náttúrunni, í húsarústum og undir brúm. Ryan Park lét blástur og ofankomu ekki á sig fá þar sem hann gekk um Fnjóskadal og afþakkaði boð um bílfar.

 

„Ég vildi gera eitthvað mjög erfitt, eitthvað sem gerði mig - ja ekki betri en sterkari,“ segir Park. Hann skoðaði Ísland á landakorti og hugsaði með sér að hann gæti gengið hringinn. Tveir mánuðir eru liðnir síðan Park lagði af stað frá Reykjavík. Hann hefur farið mishratt yfir og þegar hann hefur komið að lokuðum vegum eða lent í versta veðrinu hefur hann farið á puttanum í stað þess að ganga.

Park segir þetta mestu áskorunina á lífsleiðinni enn sem komið er. „Enn sem komið er er þetta í lagi, held ég. Mig verkjar í fæturna og axlirnar en það er í lagi. Ég get haldið áfram, ég kemst lengra og held ég nái markmiðinu.“

Park hefur tvær vikur til stefnu áður en hann á bókað flug úr landi. Næturgistingin er af ýmsum toga. „Stundum hef ég tjaldað úti við. Stundum hef ég fundið gömul yfirgefin hús, rústir og tjaldað þar, stundum hef ég tjaldað undir brú. Ég hef líka farið að bóndabæum og leitað ásjár, stundum hefur fólk leyft mér að sofa á sófanum eða í rúmi.“

 

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV