Titringur í kringum krónuna

11.07.2017 - 21:25
Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink RÚV  -  RÚV Anton Brink
Gengi krónunnar veiktist um þrjú prósent miðað við evru í dag, samkvæmt upplýsingum frá Arion banka. Sérfræðingur hjá Arion banka segir að búast hafi mátt við auknum sveiflum í gengi eftir að skref voru stigin í átt að afnámi gjaldeyrishafta fyrr á árinu. Talsverður titringur sé nú í kringum krónuna. Hann segir líka að hjarðhegðun á markaði hafi áhrif á gengi. Lektor í hagfræði segir að hreyfingar milli daga séu ekkert óeðlilegar í sjálfu sér en þrjú prósent komi á óvart.

Frá því í byrjun júní hefur krónan lækkað um rúm tólf prósent frá því hún náði hámarki snemma í júní. Það gerðist í kjölfar níu prósenta styrkingar yfir tvo mánuði þar á undan. „Það virðist vera dálítill taugatitringur í kringum krónuna. Síðustu fjögur ár styrktist krónan nánast samfellt fram að áramótum. Hún náði mjög háu gengi í vor en síðan hafa sveiflur aukist verulega. Sveifla í átt til styrkingar var næstum því jafn ör og sveiflan núna í átt til veikingar,“ segir Stefán Broddi Guðjónsson, forstöðmaður greiningardeildar Arion banka.

Katrín Ólafsdóttir, lektor í Hagfræði við Háskóla Íslands, kann ekki skýringar á snarpri lækkun gengisins í dag. „Hreyfingar milli daga eru ekkert óeðlilegar í sjálfu sér en þrjú prósent á þriðjudegi í júlí kemur aðeins á óvart,“ segir hún.

„Það mátti svo sem eiga von á því að sveiflur í gengi krónunnar myndu aukast þegar að skref voru stigin í átt að afnámi hafta í byrjun árs,“ segir Stefán Broddi, sem þó átti ekki von á eins stórum sveiflum og síðustu mánuði.

Sérkennileg staða vegna Seðlabankans

Ein skýringin á „taugatitringnum“ sé að óljóst er hvenær Seðlabankinn grípi inn í til að jafna sveiflur og hvenær ekki. Áður en skref voru stigin til afnáms hafta var Seðlabankinn langstærsti þátttakandinn á gjaldeyrismarkaði, segir Stefán. „Það gerir síðan stöðuna enn sérkennilegri að Seðlabankinn hefur sagst grípa inn í á gjaldeyrismarkaði til þess að jafna óhóflegar sveiflur. Samt verða sveiflurnar þetta miklar. Ef markaðurinn er þannig að maður veit að Seðlabankinn grípur inn í hefur það áhrif á hegðun hans.“

Rifjar hann upp að Seðlabankinn hafi gripið inn í á gjaldeyrismarkaði í júní og selt gjaldeyri til að stöðva veikingu gengisins. Í nýrri skýrslu Peningastefnunefndar bankans til Alþingis segir að „í öllum tilfellum hafði salan þann tilgang að stöðva keðjuverkun á markaðnum, það er mikla veikingu þar sem sama lága upphæðin gekk á milli markaðsaðila eins og heit kartafla.“ Stefán segir að þessi lýsing eigi ágætlega við í dag.

Hjarðhegðun á markaðnum

Þannig eigi hjarðhegðun í viðskiptum með krónuna sinn þátt í sveiflum á gengi. „Við höfum upplifað sterkt gengi, sérstaklega þegar krónan fór í um 110 miðað við evru. Í vor var mikil umræða um það að krónan væri í styrkingarfasa og þær afleiðingar sem það hafði fyrir útflutning. Þegar manni finnst eins og allir séu komnir á eina hliðina bregst markaðurinn hins vegar við því með því að allir fara á hina hliðina. Þetta er svolítil hjarðhegðun og ef til vill sáum við afleiðingar hennar í dag. Hversu langt hún gengur til baka er ekki gott að segja,“ segir Stefán.

„Ég hugsa að styrkingin í vor hafi verið orðin fullhraustleg fyrir langtímahagsmuni almennings og atvinnulífs og því máttum við alveg við því að krónan veiktist,“ segir hann og tekur fram að lokum að afar erfitt sé að spá fyrir um gengisþróun gjaldmiðla, ekki síst krónunnar. 

Matthías Tryggvi Haraldsson
Fréttastofa RÚV