Timburmenn heyra sögunni til

18.01.2016 - 17:04
Mynd með færslu
 Mynd: flickr.com
Nýverið var tilkynnt um lyf gegn ebólu og alnæmi. Nú fullyrða stjórnvöld í Norður-Kóreu að þau hafi þróað áfengi úr ginseng sem hafi engar óæskilegar afleiðingar. Fólk geti slarkað að vild og timburmenn ættu að heyra sögunni til.

Í Pyongyang Times er fullyrt að hægt sé að drekka ginsengvínið að vild, án þess að berjast við eftirköstin að morgni. Í greininni segir að matvælastofnun landsins hafi árum saman unnið að þróun drykkjarins. Í stað sykurs eru notuð sviðin glútenrík hrísgrjón sem koma í veg fyrir beiskju og timburmenn.

„Koryo-vínið er gert úr sex ára ginsengi sem hefur mestan lækningamátt og sviðnum hrísgrjónum sem eru viðmótsþýð og fáguð. Vínsérfræðingar jafnt sem áhugamenn fagna þessum ljúfa drykk sem kemur í veg fyrir timburmenn." 

Stjórnvöld í Norður-Kóreu hafa lengi dásamað þennan görótta drykk sem þeir hafa verið með í þróun. Síðasta sumar fjallaði ríkisfréttastofan um þróun þessa merka drykk og árið 1999 var þetta sagt lífsins elexír.

Reynist þessi fullyrðing stjórnvalda í Norður-Kóreu sönn, ætti drykkurinn að njóta mikilla vinsælda um veröld víða. Ekki síst hjá nágrönnunum í suðri sem drekka manna mest í Asíu eða 12,1 lítra af alkóhóli á ári.

Ginseng er reyndar ótrúlegt töfralyf ef marka má yfirlýsingar stjórnvalda. Það er ekki nóg með að timburmenn heyri brátt sögunni til. Á síðasta ári tilkynntu yfirvöld að lyf unnin úr ginseng sem læknuðu bráðalungnabólgu (Sars og Mers) og meira að segja alnæmi.

 

Mynd með færslu
Pálmi Jónasson
Fréttastofa RÚV