Til í að ræða gjaldtöku af ferðaþjónustu

15.03.2016 - 19:14
Mynd með færslu
 Mynd: rúv
Samtök ferðaþjónustunnar eru tilbúin í viðræður um gjaldtöku af greininni gangi hún til uppbyggingar innviða greinarinnar. Áætlaðar gjaldeyristekjur af ferðaþjónustu á þessu ári eru á fimmta hundrað milljarða króna. Formaður segir að skoða þurfi þolmörkin, bæði náttúrunnar og þau félagslegu.

Aðalfundur Samtaka ferðaþjónustunnar var haldinn í dag. Formaður samtakanna segir styrkingu krónunnar eina helstu ógn greinarinnar því hún geti skaðað samkeppnishæfnina. Vöxturinn sé mestur frá Bandaríkjunum og Bretlandi, en gjaldmiðlar þeirra landa hafa haldið sínu, en ferðamönnum frá evrulöndum hafi fækkað. Formaðurinn telur ekki að það megi rekja til  verðlags hér. Gert er ráð fyrir að greinin skili verulegum gjaldeyristekjum á þessu ári.

„Á þessu ári erum við að horfa til þess að íslensk ferðaþjónusta skili á fimmta hundrað milljarða í íslenskt þjóðarbú,“ segir Grímur Sæmundsen formaður Samtaka ferðaþjónustunnar.

Grímur segir stærsta verkefni greinarinnar næsta starfsárið að skoða þurfi hver þolmörkin séu , bæði hvað varðar náttúruna og eins félagslegu þolmörkin. Þegar sé byrjað að skoða þolmörk náttúrunnar, en finna þurfi sáttatóninn milli greinarinnar og þjóðarinnar, vöxtur geti ekki orðið nema í sátt við þjóðina, og óánægja heyrist hjá fólki. Grímur segir að stjórnvöld hafi verið hvött til að styrkja innviðina svo hægt sé að taka á móti þeim mikla fjölda ferðamanna sem hingað kemur. Hann bendir á að  akstur ferðamanna á bílaleigubílum hafi skilað 5 milljörðum króna á síðasta ári í virðisauka og bensíngjaldi, það ætti að renna til vegamála. Hann segist tilbúinn að ræða gjaldtöku af greininni. 

„Við erum reiðubúin í faglega umræðu um þessi mál á vettvangi Stjórnstöðvar ferðamála. Það er alveg ljóst hvað varðar tekjuöflun af greininni að sveitarfélög hafa legið óbætt hjá garði, hafa ekki notið vaxtar greinarinnar sem skyldi. En um leið og ég segi þetta er alveg ljóst að forsenda einhverrar gjaldtöku þarf að vera eyrnamerkt því að hún gangi til frekari uppbyggingar innviða ferðaþjónustunnar. “
„Ef hún gerir það þá eruð þið til?“
„Við erum til í þessar viðræður, já,“ segir Grímur Sæmundsen.

>> 

Mynd með færslu
Haukur Holm
Fréttastofa RÚV