Þýska lögreglan komin í krotmálið

19.03.2014 - 11:32
Mynd með færslu
Lögreglan á Húsavík hefur beðið þýsku lögregluna að taka skýrslu af listamanninum Julius von Bismarck og samstarfsmanni hans vegna gruns um að þeir hafi staðið á bak við umhverfisspjöll á þremur stöðum hér á landi.

Það vakti talsverða athygli þegar það uppgötvaðist að orðið CRATER sem þýðir gígur hafði verið ritað stórum stöfum í Kverfjalli. Einnig hafði verið ritað CAVE sem þýðir hellir í Grjótagjá og LAVA sem þýðir hraun í hrauninu suður af Mývatni. Hverfjall er friðlýst svæði og því kærði Umhverfisstofnun verknaðinn. Lögreglan á Húsavík rannsakar málið og bárust henni ábendingar um að myndir af áletruninum væri að finna á sýningu listmannsins Julius von Bismarck í Berlín.

Sigurður Brynjúlfsson, yfirlögregluþjónn á Húsavík, segir að í byrjun ársins hafi þýska lögreglan verið beðin að taka skýrslu af listamanninum og aðstoðarmanni hans. Hann vissi ekki hvort því væri lokið en allavega hefur lögreglan Húsavík ekki enn fengið afrit af skýrslunum.