Þúsundir sýndu Walesa samstöðu í Gdansk

28.02.2016 - 23:42
epa05185094 People during a rally in support of former Polish president Lech Walesa, in Gdansk, Poland, 28 February 2016. The event was held in support of first leader of Solidarity movement and former Polish president Lech Walesa, who was recently
Frá Samstöðutorginu  Mynd: EPA  -  PAP
Um 15.000 manns söfnuðust saman í pólsku hafnarborginni Gdansk í kvöld til að sýna samstöðu með Lech Walesa, frelsishetju og fyrrverandi forseta landsins. Áhrifafólk úr ríkisstjórn þjóðernishægriflokksins Laga og réttlætis hefur látið að því liggja að undanförnu að Walesa hafi verið flugumaður kommúnistastjórnarinnar á áttunda áratug síðustu aldar, en Walesa hefur gagnrýnt núverandi stjórnvöld harðlega fyrir fasíska stjórnarhætti og aðför að lýðræðinu.

Fólkið safnaðist saman á Samstöðutorginu, sem kennt er við samnefnt verkalýðsfélag, sem Walesa leiddi og átti lykilþátt í að stofna árið 1980 í andstöðu við þáverandi stjórnvöld kommúnista. Radomir Szumelda, einn leiðtoga KOD, Varnarsveitar lýðræðisins, segir Walesa enn hetju í augum pólsku þjóðarinnar og rógur og aðdróttanir ríkisstjórnarinnar eigi sér enga stoð í raunveruleikanum.

Walesa tók þátt í samningaviðræðum andófsafla og stjórnvalda í Póllandi undir lok níunda áratugarins, sem miðuðu að því að binda endi á stjórn kommúnista í landinu án blóðsúthellinga. Eins og Danuta, eiginkona Lechs Walesa, benti á þegar hún ávarpaði samstöðufundinn í kvöld, þá var það aldrei neitt leyndarmál að Walesa hafi tekið þátt í samningaviðræðum við kommúnistastjórnina.

Walesa hefur tjáð sig um ásakanir stjórnvalda. Hann vísar því algjörlega á bug að hann hafi njósnað fyrir kommúnistaflokkinn, en viðurkennir að hann hafi gert ávkeðin mistök, sem hann geti þó ekki farið nánar út í enn sem komið er af tillitsemi við aðra sem við sögu koma og enn eru á lífi. Segir hann að gögn sem dregin hafa verið fram úr skjalasafni pólsku leyniþjónustunnar og notuð hafa verið gegn honum að undanförnu séu fölsuð. Vel fölsuð, en fölsuð engu að síður. 

 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV