Þurfi að samræma ólíka ferðaþjónustu

19.05.2014 - 09:13
Mynd með færslu
Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar hefur lagt til að lágflug yfir Hornströndum verði bannað og vilja heimamenn standa vörð um friðsæld svæðisins. Ásbjörn Björgvinsson, formaður Ferðamálasamtaka Íslands, segir að ferðaþjónustufyrirtæki víða um land þurfi að ræða betur saman og samræma sína starfsemi.

Ásbjörn var í viðtali í Morgunútvarpinu á Rás 2 í morgun. Hann sagði fyrirtæki í ferðaþjónustu bjóða upp á ólíka upplifun. Ýmis rótgróin fyrirtæki hefðu boðið upp á ákveðna tegund ferða í rólegheitum og farið hægt um. „Svo koma þessir hraðbátar eða flugvélar eða þyrlur inn á svæðið alveg án þess að ræða við hinn aðilann og þá er upplifunin einhvernveginn algjörlega farin, og þetta veldur auðvitað pirringi. Þannig að þarna eigum við eftir að klára að setja einhverjar reglur, hugsanlega verðum við hreinlega að banna lágflug á ákveðnum svæðum, eða þá þessa hraðbáta á viðkvæmum svæðum.“ Þetta eigi sérstaklega við hjá fuglabjörgum og annars staðar þar sem fuglalíf sé mikið, þar þurfi menn að fara varlega.