Þurfa samning til að starfa á Þingvöllum

14.04.2017 - 08:31
Mynd með færslu
 Mynd: Pmarshal  -  Wikimedia Commons
Umhverfis- og auðlindaráðuneytið birti fyrir helgi drög að frumvarpi um breytingar á lögum um þjóðgarðinn á Þingvöllum og Vatnajökulsþjóðgarð. Í frumvarpsdrögunum er lagt bann við rekstri atvinnutengdrar starfsemi innan Þjóðgarðsins á Þingvöllum nema að gerðum samningi við þjóðgarðsyfirvöld. Að auki þarf að afla leyfis vegna skipulagðra viðburða og verkefna innan þjóðgarðsins. Loks er kveðið skýrt á um heimildir þjóðgarðsyfirvalda til að taka gjald fyrir veitta þjónustu innnan þjóðgarðsins.

Breytingarnar eru í samræmi við lög um Vatnajökulsþjóðgarð, sem eru þremur árum yngri en lögin um Þjóðgarðinn á Þingvöllum. Bætt er við heimild til gjaldtöku í Vatnajökulsþjóðgarði.

„Fjöldi gesta sem leggur leið sína í þjóðgarðinn á Þingvöllum hefur margfaldast á síðustu árum með þeim afleiðingum að ekki hefur verið tækt að halda uppi virkri náttúruvernd, varðveislu menningarminja og vinna að uppbyggingu á svæðinu með fullnægjandi hætti,“ segir í greinargerð með frumvarpinu. „Kveður frumvarp þetta á um breytingar á núgildandi löggjöf sem er ætlað að stuðla að því að hægt verði að taka á móti öllum þeim fjölda gesta sem leggur leið sína í þjóðgarðinn án þess að röskun verði á náttúru og menningarminjum.“

Í greinargerðinni segir að núgildandi löggjöf geri þjóðgarðsyfirvöldum ekki kleift „að vernda náttúru þjóðgarðsins með fullnægjandi hætti, varðveita, viðhalda og vinna að uppbyggingu menningarminja á svæðinu og stuðla að öryggi gesta þjóðgarðsins“. Þar er tekið fram að Þjóðgarðurinn á Þingvöllum hafi sérstakt gildi sem sé órjúfanlega bundið því að sérstakir staðir innan hans haldi sínum náttúrulegum sérkennum. „Stuðst hefur verið við þá meginreglu við rekstur þjóðgarðsins að náttúrunni verði ekki raskað frekar en orðið er nema hið sérstaka gildi rýrist óverulega og það stuðli að afnotum sem tengjast sérkennum þjóðgarðsins. Þegar áhrif ákvarðana stjórnsýslunnar, sem snerta jafnvægi verndunar og afnota eru óljós, ber verndun náttúrunnar að hafa forgang.“

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV