Þrjár flóttafjölskyldur hættu við að koma

18.01.2016 - 16:34
Mynd með færslu
 Mynd: Ingólfur Bjarni Sigfússon  -  RÚV
Þrjár sýrlenskar fjölskyldur sem höfðu lýst áhuga á að koma til Íslands sem flóttamenn, og höfðu tryggt pláss þar, hafa hætt við að koma. Þá kemur ein fjölskylda til viðbótar ekki strax þar sem í henni er barnshafandi kona sem reyndist ekki fær um að takast ferðalagið strax á hendur.

Fyrsti hópur flóttafólksins kemur á morgun. Í tilkynningu frá velferðarráðuneytinu kemur fram að í honum séu sex fjölskyldur - 13 fullorðnir og 22 börn. Fjórar þessara fjölskyldna setjast að á Akureyri, samtals 23 einstaklingar, en tvær í Kópavogi.

Í tilkynningunni kemur fram að komu einnar fjölskyldu til landsins hafi verið frestað. Barnshafandi kona sem átti að koma á morgun reyndist ekki fær um að takast á hendur ferðalagið og því kemur fjölskylda hennar síðar. Þá hafa þrjár fjölskyldur sem höfðu lýst áhuga á að koma til Íslands hætt við að koma. Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna hefur í samvinnu við íslensk stjórnvöld undirbúið komu hóps flóttafólks í stað þeirra. Stefnt er að því að sá hópur komi innan fárra vikna og að fólkið setjist að í Kópavogi og Hafnarfirði. 

Mynd með færslu
Hallgrímur Indriðason
Fréttastofa RÚV