Þrjár einkareknar heilsugæslustöðvar í haust

25.02.2016 - 12:25
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Þrjár einkareknar heilsugæslustöðvar gætu tekið til starfa á höfuðborgarsvæðinu í haust samkvæmt róttækum breytingum á heilsugæslunni sem heilbrigðisráðherra kynnti í morgun. Hann segir ekki verið að einkavæða heilsugæsluna. Breytingarnar eða endurbæturnar á heilsugæslunni eiga að tryggja öryggi og almennings að heilbrigðisþjónustu.

Ekki verið að einkavæða

Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra kynnti ásamt landlækni, formanni Félags heimilislækna og fleiri breytingarnar á fréttammannafundi í Hannesarholti fyrir hádegi. Starfsmenn Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins fengu kynningu í gær. 
„Þetta gengur út á það að styrkja grunnheilbrigðisþjónustuna í landinu, byrja á höfuðborgarsvæðinu. Og það er full þörf á því að heilsugæslan, þessi grunnstöð íslenska heilbrigðiskerfisins, sé styrkt. Nú kemur örugglega upp í huga margra, er verið að einkavæða heilsugæsluna? Nei, það er langur vegur frá því. Við erum að gera ráð fyrir því að það verði óbreyttur rekstur á þessum fimmtán opinberu stöðvum sem við erum með í rekstri í dag og síðan bætum við við allt að þremur stöðvum, sem að verða í rekstri einkaaðila. “

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Ráðherra kynnir breytingarnar á fréttamannafundi í Hannesarholti

Féð fylgir sjúklingum milli stöðva

Ráðherra segir að heilsugæslan eigi að standa við lögskipað hlutverk sitt: „Og til þess að svo megi verða þá verðum við að ganga til breytinganna en ekki búa við þá stöðnun sem í þessu kerfi hefur verið núna í hartnær tvo áratugi.“
Breytingarnar eiga að auka samkeppni í rekstri heilsugæslustöðva. Þeir sem reka nýju heilsugæslustöðvarnar mega ekki greiða sér arð. Sjúklingar eiga ekki að verða varir við breytingar nema að markmiðið er að allir eigi sinn heimilislækni.
„Sjúklingar munu smátt og smátt fá tilfinningu fyrir því að það ræður fjármagni heilsugæslustöðva hvar þeir kjósa að vera skráðir á stöð. Þegar þú spyrð, bara svo ég segi það, hvernig sjúklingar verði mest varir við þetta, þá vonandi með þeim hætti að við getum bætt hér við nýjum heilsugæslustöðvum á hausti komanda.“
Ráðherra á von á að Sjúkratryggingar Íslands auglýsi eftir þremur nýjum rekstraraðilum í mars. 

BSRB mótmælir

Í fréttatilkynningu BSRB fyrir hádegi er vísað í ályktun stjórnar BSRB frá því í desember þar sem stjórnin segist leggjast alfarið gegn áformum heilbrigðisráðherra um einkavæðingu heilsugæslustöðva. 

 

Þórdís Arnljótsdóttir
Fréttastofa RÚV