Þrír morðingjar fengið uppreist æru frá 1995

14.08.2017 - 16:55
Mynd með færslu
 Mynd: CC0  -  Pixabay
Sex nauðgarar, þrír barnaníðingar og þrír morðingjar eru á meðal þeirra 32 sem hafa fengið uppreist æru frá árinu 1995, samkvæmt upplýsingum sem dómsmálaráðuneytið birti í dag. Á sama tíma hefur 54 verið synjað um uppreist æru, öllum vegna þess að þeir uppfylltu ekki formskilyrði.

Í yfirlitinu sem ráðuneytið birtir kemur fram hvaða lagagreinar viðkomandi gerðust brotlegir við, hversu þunga dóma þeir hlutu, hvaða ár var sótt um uppreist æru og hvaða dag uppreist æru var veitt eða af hverju henni var synjað. Nöfn umsækjenda eru ekki birt.

Sem áður segir hafa þrír fengið uppreist æru frá árinu 1995 sem hlutu dóma fyrir manndráp. Sá síðasti sem það gerði var lögfræðingurinn Atli Helgason, sem fékk æru sína upp reista í nóvember 2015. Af níu kynferðisafbrotamönnum á listanum fengu fjórir uppreist æru í ágúst og september í fyrra. Þeirra á meðal var lögfræðingurinn Robert Downey, sem frægt varð fyrr í sumar þegar Hæstiréttur dæmdi að hann mætti fá lögmannsréttindi sín aftur.

Sex þessara níu hlutu dóma fyrir nauðgun – dómarnir voru á bilinu 15 mánuðir til tvö og hálft ár. Hinir þrír hlutu dóma fyrir kynferðisbrot gegn börnum og þar námu refsingar 18 mánuðum, þremur árum og fimm og hálfu ári.

Athygli vekur að samkvæmt yfirlitinu sótti enginn um eða fékk uppreist æru á sex ára tímabili, á árunum 2000 til 2005. Síðan þá hefur að minnsta kosti einn hlotið uppreist æru á hverju ári, ef frá er talið árið 2012. Flestir fengu uppreist æru árin 1997 og 2016, fimm manns hvort ár.

Mynd með færslu
Stígur Helgason
Fréttastofa RÚV