Þremur endurupptökubeiðnum hafnað

09.02.2016 - 19:02
Endurupptökunefnd hefur hafnað beiðnum Hreiðars Más Sigurðssonar, Sigurðar Einarssonar og Ólafs Ólafssonar, um að Al Thani-málið verði endurupptekið í Hæstarétti. Ólafi hafi ekki verið ruglað saman við annan Ólaf í umdeildu símtali.

Hæstiréttur dæmdi fyrir tæpu ári að kaup Katarmannsins Al Thanis á rúmlega 5% hlut í Kaupþingi rétt fyrir hrun hefðu verið sýndarviðskipti. Hreiðar Már Sigurðsson, Sigurður Einarsson, Ólafur Ólafsson og Magnús Guðmundsson afplána nú þunga dóma.

Hæstiréttur taldi að með flókinni félagafléttu hefði átt að dylja að Ólafur, sem átti tæplega 10% hlut í bankanum í gegnum félagið Eglu Invest, stæði í raun að baki kaupunum að helmingi.

Í dómi Hæstaréttar er vísað til umdeilds símtals Bjarnfreðs Ólafssonar lögmanns og Eggerts Hilmarssonar, yfirlögfræðings Kaupþings í Lúxemborg, um undirbúning viðskiptanna. Þar ræða þeir meðal annars hvort tilkynna þurfi aðkomu Ólafs í kauphöllinni.

Kaupþingsmenn telja að Hæstiréttur hafi misskilið símtalið og ruglað Ólafi saman við Ólaf Arinbjörn Sigurðsson, samstarfsmann Bjarnfreðs. Ruglingurinn hafi ráðið úrslitum um að Ólafur og hinir sakborningarnir voru dæmdir. 

Svona fjallar endurupptökunefnd um símtalið.

Samkvæmt símtali hinn 17. september 2008 kveðst Bjarnfreður vera „búinn að nefna það við Óla sko að það yrði Kýpur félag fyrir ofan [...]" og „[...] hvort að það væri sko flöggun á honum sko" sem Eggert svarar með að „það var næsta atriði af því hann er náttúrulega þarna inni í Eglu og allt það sko". Hvorki getur hafa verið flöggun á Ólafi Arinbirni, né mun hann hafa verið inni í Eglu. Einnig kemur fram hjá Eggerti að „hann má ekki flagga, við viljum bara að Quatarinn flaggi og enginn annar [...]" og síðar að „Ólafur náttúrulega á að fá sinn part í kökunni sko". Bersýnilegt er að þarna er ekki átt við Ólaf Arinbjörn.

Endurupptökunefnd telur hafið yfir skynsamlegan vafa að Bjarnfreður og Eggert hafi allan tímann verið að tala um Ólaf Ólafsson. Þá hafnar hún því að tveir dómarar í Hæstarétti hafi verið vanhæfir vegna starfa sona þeirra fyrir slitastjórn Kaupþings. Mál Hreiðars, Sigurðar og Ólafs verða því ekki endurupptekin, en nefndin á eftir að úrskurða um beiðni Magnúsar.

Tryggvi Aðalbjörnsson
Fréttastofa RÚV