Þingsályktunartillaga tekin af dagskrá

24.02.2014 - 14:42
Mynd með færslu
Líklegt er að umræðu um þingsályktunartillögu Gunnars Braga Sveinssonar, utanríkisráðherra - um að Ísland dragi til baka aðildarumsókn sína að Evrópusambandinu- verði tekin af dagskrá Alþingis í dag og verði í staðinn á morgun.

Formenn þingflokka stjórnarandstöðunnar gengu af fundi Einars K. Guðfinnssonar, forseta Alþingis, til að mótmæla þeirri ákvörðun að hafa umræðu um ályktunina á dagskrá þingsins í dag.  

Á visir.is er haft eftir Róberti Marshall, þingflokksformanni Bjartrar framtíðar, að Einar hafi ákveðið að taka þingsályktunina af dagskrá þingfundar í dag og að hún verði í staðin á morgun.

Á vef Alþingis hefur umræðan þó ekki verið fjarlægð en samkvæmt heimildum fréttastofu hyggst forseti Alþingis tilkynna þingheimi við upphaf þingfundar klukkan þrjú að hún hafi verið tekin af dagskrá en að hún verði á morgun.

ESB verður þó áfram rætt  á Alþingi í dag því umræðu um skýrslu Hagfræðistofnunar verður framhaldið að loknum óundirbúnum fyrirspurnartíma.