Þingið hefst á friðsamlegum nótum

11.03.2014 - 14:10
Mynd með færslu
Framhald fyrri umræðu um þingsályktunartillögu Gunnars Braga Sveinssonar, utanríkisráðherra, um að draga beri aðildarumsókn Íslands að ESB til baka, hófst á Alþingi um klukkan tvö í dag. Fimmtán eru á mælendaskrá - tvær aðrar þingsályktunartillögur um ESB eru einnig á dagskrá þingsins.

Þingstörf í dag fóru friðsamlega af stað og hafa þingmenn til að mynda ekki kvatt sér hljóðs um fundarstjórn forseta líkt og í gær.  Valgerður Bjarnadóttir þingmaður Samfylkingarinnar var fyrst á mælendaskrá og hún vakti athygli á því í byrjun ræðu sinnar að nú hefðu rúmlega 49 þúsund skrifað undir á þjóð.is þar sem skorað er á Alþingi að leita þjóðarviljans og efna til þjóðaratkvæðagreiðslu um framhald aðildarviðræðna.

Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, sagði í hádegisfréttum RÚV að það væri algjör óvissa um framhald mála. „Það  voru mér mikil vonbrigði í gær á þessum fundi formanna flokkanna að það kæmi ekkert útspil frá formönnum stjórnarflokkanna því auðvitað væri best að menn ræddu einhverjar leiðir til að ná einhverri efnislegri sátt um málið.“

Hún segir að þótt ljóst sé að ágreiningur sé um málið sé nauðsynlegt að ná sátt um málsmeðferð. „Nú liggur fyrir að það hafa komið hér fram ýmsar tillögur, tillögur ætlaðar til sátta eins og til dæmis tillaga okkar þannig að það hefur verið sýndur mikill vilji af ólíkum þingflokkum til þess að leita einhverra leiða til að ná efnislegri sátt. En það þarf auðvitað koma eitthvað skýrt útspil frá stjórnarflokkunum.“

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra ítrekaði afstöðu ríkisstjórnarinnar á þingfundi í gær. „Ég geri ennþá ráð fyrir því að til þess komi einhvern tíma að menn muni greiða atkvæði um það hvort þeir vilji ganga einhvern tíma í Evrópusambandið en það er ekki hægt að ætlast til þess að ríkisstjórn sem er andvíg aðild að sambandinu sé í viðræðum við sambandið.“

Klukkustundarhlé verður gert á þingfundi í dag klukkan þrjú vegna jarðarfarar Matthíasar Bjarnasonar fyrrverandi ráðherra og alþingismanns Sjálfstæðisflokks en hann lést 28. febrúar síðastliðinn.