„Þetta mun ekki klikka“

06.06.2016 - 11:14
„Við horfum út, upp og fram“, segir Oddný Harðardóttir, nýkjörinn formaður Samfylkingarinnar, um stöðuna að loknum landsfundi. Hún boðar ekki stefnubreytingu. „Jafnaðarmenn skilgreina sig ekki til hægri eða vinstri. Við berjumst gegn sérhagsmunum fyrir almenning, gegn spillingu og klíkuskap, viljum öflugt opinbert heilbrigðis- og velferðarkerfi, sem virkar fyrir alla. Ef menn vilja kalla það vinstri- eða hægristefnu, þá það. Þetta er bara jafnaðarstefna,“ sagði Oddný á Morgunvaktinni á Rás 1.

Oddný Harðardóttir segir að skattkerfið sé ekki nýtt til að tryggja efnahagslegan stöðugleika og um leið undirstöður velferðar- og menntakerfis. Veikleikinn í ríkisfjármálaáætlun næstu ára sé á tekjuhliðinni, eins og Seðlabankinn hafi bent á. Hún nefnir gjöld sem ríkisstjórnin hafi lækkað eða hafi verið afnumin: veiðileyfagjöld lækkuð um milljarða, auðlegðarskattur aflagður og raforkuskattur á stóriðjuna, og þrepum í tekjuskattskerfinu fækkað. Oddný segir að við núverandi efnahagsaðstæður verði ríkissjóður að afla meiri tekna til að gera nauðsynlegar úrbætur á velferðarkerfinu.

„Tekjuhliðin er veik og við þurfum að laga hana“.

Nýr formaður Samfylkingarinnar segir sangjarnt að sveitarfélög fái hluta þeirra tekna sem koma af virðisaukaskatti sem ferðamenn greiða. Það sama eigi að gilda um veiðigjaldið. „Við viljum að arðurinn af auðlindinni renni til þjóðarinnar til að styrkja velferðarkerfið. Við viljum sanngjarnt skattkerfi með mörgum þrepum. Um leið viljum við að fólk fái örugga þjónustu, sem skipti máli.“

Samfylkingin undirbýr nú kosningabaráttu vegna alþingiskosninga í haust. Oddný Harðardóttir segir að unnin verði 130 daga áætlun sem miði að því að vinna sigur í kosningunum. Hún óttast ekki samkeppni frá nýja flokknum, Viðreisn, en fagnar áherslum í Evrópumálum, þeirri stefnu að bjóða út aflaheimildir og áherslum varðandi búvörusamninginn. „En ég held að Viðreisn taki ekkert frá jafnaðarmannaflokki.“ Hvað segir nýi formaðurinn um þá hugmynd að núverandi stjórnarandstöðuflokkar geri kosningabandalag?

„Mér finnst kosningabandalag koma vel til greina en ég vil að Samfylkingin fari í slíkar viðræður þegar hún hefur rétt úr kútnum.“

Hún segir að samstarf stjórnarandstöðuflokkanna hafi gengið vel en hún vilji ræða nánar við sína félaga hvert stefnt verður.

„Við ætlum að kynna stefnu okkar þannig að fólkið í landinu geti mátað hana við sitt daglega líf og metið hversu miklu máli hún skiptir fyrir þeirra kjör. Við höfum verið gagnrýnd fyrir að nota mörg orð og vera tæknileg. Nú ætlum við að gera þetta með öðrum hætti.“

Oddný Harðardóttir er hvergi bangin, eins og fram kom á Morgunvaktinni:

„Ég hlakka til baráttunnar,. Svo er ég svo mikil keppnismannsekja og hef ríka þörf til að ná árangri. Þetta mun ekki klikka.“

Mynd með færslu
Óðinn Jónsson
dagskrárgerðarmaður
Morgunvaktin
Þessi þáttur er í hlaðvarpi