Þarf að milda Sjálfstæðisflokkinn

14.11.2016 - 09:27
Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink  -  Ruv.is
Björt Ólafsdóttir alþingismaður Bjartrar framtíðar segir að það þurfi að milda stefnu Sjálfstæðisflokksins, þess vegna taki flokkurinn þátt í stjórnarmyndunarviðræðum.

Nokkuð hefur á borið á gagnrýni innan Bjartrar framtíðar og frá vinstri væng stjórnmálanna á forystu Bjartrar framtíðar fyrir að ganga til stjórnarmyndunarviðræðna við Sjálfstæðisflokkinn.

Páll Valur Björnsson, stjórnarmaður í Bjartri framtíð og fyrrverandi alþingismaður, segir í Fréttablaðinu í dag að flokkur hans 
eigi enga samleið með Sjálfstæðisflokknum. Blásið hafi verið til kosninga vegna Panamaskjalanna og að Bjarna Benediktsson, formann Sjálfstæðisflokksins, hafi verið að finna þar. Samstarf við Sjálfstæðisflokkinn hefði átt að vera síðasti kosturinn í stjórnarmyndunarviðræðum. 

Björt Ólafsdóttir alþingismaður Bjartrar framtíðar bendir á að þriðjungur kjósenda vilji að Sjálfstæðisflokkurinn komi að stjórn landsins, en að Björt framtíð fari ekki inn í stjórnarsamstarf sem feli í sér að flokkurinn svíki það sem hann stendur fyrir. Hann sé í nokkuð sterkri stöðu til að ná fram sjónarmiðum sínum.

„Mér myndi aldrei detta í hug að koma tilbaka til hans og annarra í Bjartri framtíð með stjórnarsáttmála sem hann gæti ekki verið stoltur af og við,“ sagði Björt Ólafsdóttir í Morgunútvarpi Rásar tvö í morgun.

Hún bendir á að flokkurinn sé í góðu meirihlutasamstarfi við Sjálfstæðisflokkinn í stórum sveitarfélögum eins og Kópavogi og Hafnarfirði og hún segir að það þurfi að milda Sjálfstæðisflokkinn.

„Já, það þarf að gera það, að mínu viti. Þess vegna erum við í stjórnarmyndunarviðræðum við þau. Ég meina það eru mörg atriði þar sem við erum sammála, hugsanlega getum við dregið Sjálfstæðisflokkinn í það að vera frjálslyndari flokk að einhverju leyti, ég ber miklar vonir til þess.“

 

 

Mynd með færslu
Jóhann Hlíðar Harðarson
Fréttastofa RÚV