„Þar inni er allt eins og eftir loftárás“

13.01.2016 - 13:31
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
„Sum nýju húsin eru sprungin en engar meiriháttar skemmdir virðast hafa orðið á kaupfélagshúsunum en það eru stærstu húsin á staðnum. Miklar skemmdir hafa hins vegar orðið á vörum og innréttingum í aðalverslunarhúsnæði kaupfélagsins og það er ekki orðum aukið að segja að þar inni er allt eins og eftir loftárás.“ Svona lýsti Kári Jónasson fréttamaður aðstæðum á Kópaskeri eftir jarðskjálftann sem þar reiðir yfir fyrir 40 árum. Mörg hús eyðilögðust og önnur skemmdust.

Jarðskjálftinn sem reið yfir 13. janúar 1976 átti sér reyndar langan aðdraganda. Jörð hafði skolfið frá 20. desember og kynntu vísindamenn sér aðstæður milli jóla og nýárs. Steinunn Sigurðardóttir fréttamaður lýsti samtali sínu við Eystein Tryggvason jarðeðlisfræðing á nýársdag 1976. „Hann nefndi einnig að kvöldið sem jarðskjálftarnir byrjuðu að finnast á Skinnastað í Öxarfirði hefði maður hugsað sér að vaka og telja þá en verið kominn upp í hátt á áttunda hundrað þegar hann fór og hallaði sér. Eysteinn sagðist ekki vita dæmi um svo marga skjálfta neins staðar í heiminum.“

Skjálftinn sem skók Kópasker fyrir 40 árum átti upptök sín tólf kílómetra suðvestur af Kópaskeri, undir sjó.

Hentist tvo þrjá metra í loftinu

Kári Jónasson fréttamaður hitti Jóhannes Þórarinsson sem var í sláturhúsinu þegar jarðskjálftinn reið yfir. Jóhannes var þá á leið frá Kópaskeri með fólk í bíl sínum. „Þetta byrjaði hægt en svo jókst það alveg gífurlega og húsin voru á fleygiferð. Hvað skemmdist frystihúsið til dæmis? Frystihúsið skemmdist já en það kannski sér tiltölulega minna á því en mörgum öðrum húsum þarna. Þau eru sum óíbúðarhæf. Geturðu lýst húsunum fyrir okkur? Eru þau sprungin að utan? Eru rúður brotnar? Ekki eru rúðu mikið brotnar en húsin eru mjög mikið sprungin.“

Jóhannes sagði Kára að fólk hefði hlaupið út úr húsum og farið síðan að leita að sínum nánustu. Sjálfur bar hann jarðskjálftanum merki. Kári benti á skrámur í andliti Jóhannesar og fékk svarið: „Ég hentist tvo þrjá metra bara í loftinu og kom niður á höfuðið. Ég lenti svo niður um lúgu á gólfinu í næsta klefa fyrir neðan.“

Uggandi um annan skjálfta

Ragnar Stefánsson jarðskjálftafræðingur kom á Kópasker eftir skjálftann, fór þar um og skoðaði aðstæður. „Menn spyrja hér þeirrar spurningar sem er mjög eðlileg hvort búast megi hér í nágrenni við öðrum slíkum skjálfta eins og þeim sem varð hér í gær. Sjálfur tel ég ekki miklar líkur á slíku.“