Tengdasonur Trumps kvartaði undan CNN

17.02.2017 - 04:44
Mynd með færslu
 Mynd: AP Images  -  RÚV
Jared Kushner, tengdasonur Donalds Trumps Bandaríkjaforseta og einn nánasti ráðgjafi hans, átti fund með yfirmanni Time Warner fjölmiðlasamsteypunnar nýlega. Þar lýsti hann yfir áhyggjum sínum af fréttaflutningi CNN fréttastöðvarinnar, dótturfyrirtækis Time Warner. Bandaríska dagblaðið Wall Street Journal hefur þetta eftir heimildamönnum innan Hvíta hússins.

Kushner sat fund með Gary Ginsberg, aðstoðarframkvæmdastjóra markaðs- og samskiptadeildar Time Warner. Þar greindi Kushner frá afstöðu forsetans til fréttaflutnings CNN sem honum finnst vera einhliða gegn sér. Sjálfur hefur Trump margsinnis lýst afstöðu sinni til fréttamiðla, þá sérstaklega CNN, nú síðast á blaðamannafundi í Hvíta húsinu í gær. Hann sakar fréttastöðina um falskan fréttaflutning sem sé nánast einungis beint gegn honum.

Samruni fjarskiptarisans AT&T og Time Warner bíður samþykkis stjórnvalda. Trump sagði í kosningabaráttunni að yrði hann forseti kæmi hann í veg fyrir þann samruna. Samkvæmt heimildum Wall Street Journal var samruninn ekki ræddur á fundi þeirra Ginsbergs og Kushners. Að sögn heimildarmanna ræddu þeir ýmis málefni, á borð við Ísrael og efnahagsmál, auk frammistöðu fréttastofu CNN.

Wall Street Journal hefur eftir Mark Feldstein, fréttasagnfræðingi við Maryland-háskóla, að fundur á borð við þennan sé óvenjulegur. Það sé vitað mál að allir forsetar hafi verið ósáttir við fréttaflutning af störfum sínum. Svona vinnubrögðum hafi hann hins vegar aldrei heyrt af.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV