Telur víðtækan vilja til samkomulags

24.02.2016 - 07:27
Mynd með færslu
Eiginkona forsætisráðherra upplýsti á Facebook að hún ætti félag í Bretlandi sem notað væri til að halda utan um arf hennar.  Mynd: RÚV
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra telur víðtækan vilja til að ná samkomulagi um stjórnarskrármálið á þingi. Æskilegt sé að nota tækifærið til að klára það.

Stjórnarskrárnefnd birti á föstudag drög að frumvörpum með þremur nýjum ákvæðum inn í stjórnarskrána. Ákvæðin varða þjóðaratkvæðagreiðslu, náttúruauðlindir og umhverfis- og náttúruvernd.  Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra segist ætla að taka afstöðu til þessa þegar nefndin skilar formlega af sér. Á heildina litið sé niðurstaðan málamiðlun. 

„Ef ég á að nefna eitthvað sem ég hefði viljað hafa öðruvísi þá hefði ég kannski viljað hafa meiri áherslu á að almenningur gæti haft frumkvæði að því að setja mál á dagskrá frekar en að hafa það sem kalla mætti neikvæðu nálgunina, bara  möguleika á því að fella mál. Það er eitthvað sem má velta fyrir sér í framhaldinu. Við munum skoða þetta, formenn flokkanna, þegar þessu hefur verið formlega skilað og taka afstöðu til þess hvort menn nái saman um að leggja þetta fram.“

Fram hefur komið að ekki virðist hafa náðst samkomulag um ákvæði um framsal fullveldis. „Það var niðurstaða nefndarinnar að það væri þó of umdeilt þetta mál og áhrifin af því að ráðast í breytingar á þessu væru of óljósar og umdeildar að það væri betra að sleppa því,“ segir Sigmundur Davíð. 

Hann telur að á Alþingi sé vilji til að klára málið. „Mér hefur sýnst vera nokkuð víðtækur vilji til þess að ná samkomulagi því að fulltrúar allra flokka í nefndinni hafa náð saman og þá er spurning hvort að þingflokkarnir geri það ekki líka.“

Stendur hans hugur til þess að ljúka þessi máli á þessu kjörtímabili? „Ég held að það sé mjög æskilegt að nota tækifærið til þess að klára þarna nokkur atriði sem lengi hafa verið til umræðu og menn hafa lengi tekist á um. Menn hafa nú náð saman um svoleiðis að ef það er samstaða um málið þá er um að gera að nýta það.“
 

Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV
Jóhanna Vigdís Hjaltadóttir
Fréttastofa RÚV