Tekjur eldri borgara lækkað um fjórðung

15.11.2012 - 20:15
Mynd með færslu
Dæmi eru um að tekjur eldri borgara hafi lækkað um fjórðung á þremur árum vegna skerðinga hins opinbera segir formaður Félags eldri borgara. Með því að skerða tekjur þessa hóps hafi ríkissjóður sparað sér á annan tug milljarða króna á þremur árum.

Það kom í sjálfu sér ekki á óvart að meðalaldurinn á ráðstefnunni sem haldin var á Hótel Natura í dag væri nokkuð hár - enda málið skylt flestum þeim sem þar sátu - eða kjör eldri borgara. Á fundinum kom fram talsverð óánægja með kjaraþróun síðustu ára.

Jóna Valgerður Kristjánsdóttir, formaður Landssambands eldri borgara segir að mjög margir hafi orðið fyrir verulegum skerðingum þegar lífeyristekjur voru tengdar grunnlífeyrinum í júlí fyrir þremur árum. Jóna Valgerður telur að sú skerðing hafi numið allt að 25 prósentum. Jafnframt hafi þessi aðgerð og aðrar tekjuskerðingar sparað ríkinu allt að þrettán milljörðum fram að næstu áramótum.

Það þykir hinsvegar bót í máli að tekist hefur að verja kjör þeirra eldri borgara sem fyrir höfðu minnst milli handanna. Stefán Ólafsson, prófessor í félagsfræði við Háskóla Íslands, segir að engu síður hafi meirihluti ellilífeyrisþega orðið fyrir umtalsverðri skerðingu og kaupmáttarrýrnun. Hann segir að verkefnið framundan sé að vinna þessa skerðingu tilbaka, það sé ekki einfalt en hann telur það gerlegt og það sé markmiðið með þeirri endurskoðun á almannatryggingakerfinu sem unnið sé að um þessar mundir og komi upp á yfirborðið fljótlega.