Talinn hafa lekið upplýsingum í nokkur ár

07.01.2016 - 12:30
Mynd með færslu
 Mynd: Rúnar Snær Reynisson  -  RÚV
Lögreglumaðurinn sem situr í gæsluvarðhaldi vegna gruns um misferli í starfi er grunaður um að hafa um nokkurra ára skeið lekið upplýsingum út úr fíkniefnadeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu og jafnvel þegið greiðslur fyrir. Þetta herma heimildir fréttastofu.

 

Orðrómur um þetta hefur verið á kreiki um nokkurra ára skeið og hafa grunaðir sakamenn til að mynda nefnt þetta við skýrslutökur hjá lögreglu, samkvæmt heimildum fréttastofu. Það var svo í desember sem grunsemdirnar voru tilkynntar Ríkissaksóknara sem hóf rannsókn. Lögreglumaðurinn var síðan úrskurðaður í gæsluvarðhald í lok árs og rennur það út á morgun. Samkvæmt heimildum fréttastofu leikur grunur á að hann hafi lekið upplýsingum um nokkura ára skeið til brotamanna og jafnvel þegið greiðslur fyrir.

Í gær var annar maður handtekinn í tengslum við rannsóknina, grunaður um að vera vitorðsmaður lögreglumannsins. Talið er að einn ákveðinn hópur manna í undirheimum hafi haft hag af upplýsingunum. Erfitt getur reynst að sanna þessi tengsl þar sem saksóknari þarf að sýna fram á þetta en sum samskipti mannsins við hópinn munu hafa verið á almannafæri.

Sigríður Björk Guðjónsdóttir, lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu, segir að starfsfólk Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu sé mjög slegið vegna málsins. Hún segist ekki vita hver áhrif þess verða með tilliti til trausts almennings til lögreglu en vonast til að hún njóti áfram trausts þrátt fyrir þetta fáheyrða mál sem nú er til rannsóknar. Frekari spurningum um rannsókn málsins beinir hún til embættis ríkissaksóknara.

Ekki hefur náðst í ríkissaksóknara í morgun.