Taka myndbönd undir stýri - Kastljós í kvöld

03.02.2016 - 12:33
Atvinnubílstjórar á stórum og þungum flutningabílum virðast margir gera sér það að leik að taka upp myndbönd á síma sína við akstur og senda sín á milli. Myndböndin sýna hraðakstur, glannalegan framúrakstur stórra flutningabíla og akstur við erfiðar aðstæður, sem bílstjórarnir mynda sjálfir. „Kolólöglegt“ og „brenglað viðhorf“ segir rannsóknarstjóri umferðarslysa.

Kastljós hefur undanfarið safnað saman slíkum myndböndum af Facebook-síðum og í gegnum sérstakan Snapchat-reikning sem bílstjórarnir skiptast á að nota. 

Í mörgum myndbandanna beina bílstjórarnir símunum að sjálfum sér og svara spurningum félaga sinna á meðan þeir aka um innan- og utanbæjar. Notkun farsíma í akstri er ólögleg. En algeng.

Ágúst Mogensen, rannsóknarstjóri hjá Rannsóknarnefnd samgönguslysa, hefur undanfarin tíu ár rannsakað og mætt á vettvang allra banaslysa í umferðinni á Íslandi. Vitað er að símanotkun hefur orsakað dauðaslys hér á landi og verið meginþáttur í fjölda alvarlegra slysa.

Kastljós fékk Ágúst til að skoða myndböndin og leggja mat á það sem fyrir augu bar. Hægt er að sjá brot úr þætti kvöldsins og viðbrögð Ágústs í spilaranum hér fyrir ofan.

Fjallað verður um málið í Kastljósi í kvöld.

Mynd með færslu
Helgi Seljan
Fréttastofa RÚV
Kastljós