Tæplega 4000 bíða eftir augasteinaaðgerð

11.01.2016 - 19:50
Hönd í vasa læknisslopps og hlustunarpípa.
 Mynd: sanja gjenero  -  RGBStock
Biðlistar halda áfram að lengjast eftir ýmiss konar aðgerðum - meðal annars bíða tæplega 4 þúsund manns eftir augnsteinaaðgerð. Velferðarnefnd Alþingis fjallar nú um frumvarp sem innleiðir Evróputilskipun um aðgengi að heilbrigðisþjónustu í öðrum EES-löndum en landlæknir vill setja takmörk á það.

 

Frumvarpið fór í gegnum eina umræðu á Alþingi í haust og er nú til umfjöllunar í velferðarnefnd. Samkvæmt því geta sjúkratryggðir sótt heilbrigðisþjónustu í öðru EES-ríki og fá jafnmikið greitt með því og sambærileg aðgerð myndi kosta hér á landi.

Landlæknisembættið lýsir efasemdum í umsögn sinni og vísar þar í langa biðlista eftir aðgerðum. Samkvæmt nýjustu tölum frá október síðastliðnum bíða 3.895 eftir aðgerð á augasteini, 171 eftir hjarta- eða kransæðamyndatöku, 365 konur bíða eftir aðgerð á grindarholslíffærum og 189 eftir legnámi. Þá bíða 523 eftir mjaðmaliðaskiptum og 844 eftir hnjáliðaskiptum. Samtals bíða því 5.987 manns eftir þessum aðgerðum. 80% þeirra sem bíða, hafa beðið lengur en í þrjá mánuði, sem er viðmið landlæknis um hámark biðtíma. 

Í umsögn Landlæknis segir að frekar eigi að setja fjármagn í að stytta biðlista hér á landi en veita fé til heilbrigðisþjónustu í öðrum löndum. Án fyrirfram samþykkis á að leita erlendis sé hætta á að fjármunir fari í heilbrigðisþjónustu sem sé ekki í forgangi.

Ragnheiður Ríkharðsdóttir, sem er framsögumaður frumvarpsins sagði í samtali við fréttastofu, að hún teldi ekki rétt að einblína á að hægt væri að gera alla hluti hér. Ef það flýtti fyrir bata ætti að vera hægt að horfa út fyrir kerfið.

Velferðarnefnd tekur málið fyrir á fundi sínum á fimmtudaginn. Samstaða er í henni um að einhvers konar takmarkanir verði að vera á því hversu mikið hægt sé að leita erlendis eftir heilbrigðisþjónustu og er unnið að því að finna útfærslu á því. Slíkar takmarkanir myndu þó tæpast teljast í anda Evróputilskipunarinnar sem verið er að innleiða.

Mynd með færslu
Hallgrímur Indriðason
Fréttastofa RÚV