Sýrlensk flóttabörn ríkisfangslaus

10.01.2016 - 15:53
epa04973314 A boy carries his belongings upon his arrival on the island of Lesvos after having crossed the Aegean Sea from Turkey in a rubber dinghy, Lesvos island, Greece, 11 October 2015. A recently agreed European Union plan to relocate tens of
 Mynd: EPA  -  ANA-MPA
Í Sýrlandi erfist ríkisborgararéttur frá föður til barns. Þetta hefur áhrif á stöðu fjölmargra sýrlenskra barna sem flúið hafa til Evrópu í fylgd mæðra sinna. Sérfræðingar hafa áhyggjur af því að ný kynslóð ríkisfangslausra barna sé að verða til í Evrópu.

Samkvæmt úttekt Sameinuðu þjóðanna samanstendur fjórðungur sýrlenskra flóttamannafjölskyldna af einstæðum mæðrum og börnum þeirra. Sumar kvennanna hafa misst maka í styrjöldinni í Sýrlandi eða orðið viðskila við þá, sumir sitja í fangelsum. Þeir geta því ekki staðfest að barnið sé þeirra og þar með getur það ekki öðlast sýrlenskt ríkisfang.

Sýrlensk börn sem fæðast í Þýskalandi fá ekki endilega þýskan ríkisborgararétt þrátt fyrir að Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna kveði á um að börn sem ekki eiga rétt á ríkisfangi neins staðar annars staðar fái ríkisborgararétt þar sem þau fæðast. Sama er uppi á tengingnum í mörgum öðrum ríkjum.

Í úttekt breska blaðsins Guardians kemur fram að 30 þúsund sýrlensk börn sem hafast við í flóttamannabúðum í Líbanon eigi á hættu að verða ríkisfangslaus. Börn sem fæðst hafa sýrlenskum foreldrum í Tyrklandi eftir árið 2011 eru mörg hver í sömu stöðu. Þau eru ekki til í kerfinu og algerlega réttindalaus. Hugsanlega eru fæðingar meðal flóttamanna vanskráðar, sérstaklega á það við um fæðingar kvenna sem hefur verið nauðgað eða ungra stúlkna sem neyddar hafa verið í hjónaband.

Karel Hendriks, talsmaður stuðningssamtaka flóttamanna í Amsterdam segir að umfang vandans verð sennilega ekki ljóst fyrr en að nokkrum árum liðnum. Nú sé fólkið innan hæliskerfisins í Evrópu. Vandinn láti fyrst á sér kræla þegar hægist um í Sýrlandi og fólk getur farið heim, sumir verða ófærir um það þar sem þeir eru réttindalausir. Inge Sturkenboom, sérfræðingur Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna, segir að Evrópuríkin verði að fara að lögum og forða börnum frá ríkisfangsleysi, það hafi aldrei verið brýnna en nú.

 

Mynd með færslu
Pálmi Jónasson
Fréttastofa RÚV