Svisslendingar hafna umdeildum útlendingalögum

28.02.2016 - 15:41
epa05184825 (FILE) A file photo dated 09 February 2016 of posters campaigning for (below) and against (up) the 'Enforcement Initiative' in Zurich , Switzerland. Swiss citizens are voting on 28 February 2016 on tougher rules for expelling
 Mynd: EPA  -  KEYSTONE FILES
Svissneskir kjósendur hafa hafnað umdeildum lögum sem hefðu gert erlenda ríkisborgara brottræka úr landinu fyrir minniháttar afbrot. Fjórðungur íbúa Sviss er ekki með svissneskt ríkisfang, þrátt fyrir að margir þeirra hafi búið þar frá fæðingu eða meirihluta ævinnar og hafi ótímabundið dvalarleyfi.

Það er vegna þess að afar erfitt er fyrir fólk af erlendum uppruna að gerast svissneskir ríkisborgarar, ekki er nóg að vera fæddur í landinu. Frumvarpið, sem var borið undir þjóðaratkvæði, var þannig úr garði gert að minniháttar brot á borð við hraðakstur eða rifrildi við lögregluna hefðu framvegis leitt af sér brottvísun úr landinu ef viðkomandi hefði ekki svissneskt vegabréf.

Andstæðingar frumvarpsins sögðu það mannréttindabrot að mismuna íbúum landsins með slíku tvöföldu réttarkerfi. Aðeins svissneskir ríkisborgarar fengu að taka þátt í þjóðaratkvæðagreiðslunni í dag og samkvæmt útgönguspá höfnuðu 59% þeirra frumvarpinu.

Gunnar Hrafn Jónsson
Fréttastofa RÚV