„Sveitarfélög verða að axla meiri ábyrgð“

06.01.2016 - 19:10
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Grindavíkurbær hefur veitt HS Orku leyfi til tilraunaborana við gígaröðina Eldvörp á Reykjanesi og er undirbúningur að framkvæmdum hafinn. Formaður Landverndar segir að sveitarfélög verði að axla meiri ábyrgð og gera náttúruvernd hærra undir höfði.

Eldvörp eru um tíu kílómetra löng gígaröð sem myndaðist í sprungugosi í Reykjaneseldum á þrettándu öld. Gígaröðin á enga hliðstæðu fyrr en í Lakagígum. Eldvörp er skammt vestan við Grindavík, þar er jarðhiti sem hefur verið nýttur til orkuframleiðslu í Svartsengi. HS Orka hefur fengið rannsóknarleyfi fyrir fimm borholum en ein er fyrir á svæðinu. Eldvörp er meðal virkjunarkosta í þriðja áfanga rammaáætlunar. Staðsetning fyrir orkuvinnslu liggur ekki fyrir en gert er ráð fyrir tveimur árum í rannsóknir.

Þurfum að virkja til að standa undir velferðarkerfinu

Ásbjörn Blöndal, framkvæmdastjóri þróunarsviðs HS Orku, segir að virkjun jarðhita við Eldvörp á Reykjanesi sé nauðsynleg. Árið 2018 geti farið að bera á raforkuskorti. „Ef að grannt er skoðað þá stefnir í það að eftir þrjú ár eða svona 2018 þá getum við staðið frammi fyrir skorti í raforku, ef ekki kemur virkjun til. Það hefur komið fram hjá orkuspárnefnd að það vantar sirka 15 til 20 megavött á ári til að anna almennri fólksfjölgun og þeirri uppbyggingu á atvinnulífinu sem fylgir, sirka helmingurinn er hér á suðvesturhorninu þannig að það þurfa að koma til virkjanir ef við eigum að anna þeirri fjölgun sem verður hérna og uppbyggingu þannig að það er fyrirséð að við þurfum að virkja til að standa undir okkar velferðarkerfi, í raun og veru,“ segir Ásbjörn. 

„Vekur furðu að þetta leyfi skuli hafa verið gefið“

Grindavíkurbær hefur veitt HS Orku leyfi til borana þótt skipulagsstofnun telji að framkvæmdir stuðli að óafturkræfu raski. Guðmundur Ingi Guðbrandsson, framkvæmdastjóri Landverndar, segir það furðu sæta að Grindavíkurbær hafi veitt rannsóknarleyfi á svæðinu. Allt stefni í að orkugeirinn sé að vinna enn eina orrustuna gegn náttúru landsins. „Þetta svæði er í fyrsta lagi á náttúruminjaskrá vegna einstæðrar og sérstakrar jarðfræði sem þessi stórbrotna eldgígaröð Eldvörpin eru. Svæðið er eldhraun sem á að njóta sérstakrar verndar náttúruverndarlaganna og svo er þetta hverfisverndað samkvæmt aðalskipulagi Grindavíkurbæjar. Þannig að það vekur furðu að þetta leyfi skuli hafa verið gefið. Það má kannski segja að þetta sé enn ein orrustan sem að orkugeirinn er að vinna gegn náttúru landsins og þar með þeim hagsmunum sem að byggja á lítt snortinni náttúru, hagsmunum ferðaþjónustunnar og útivistar, ég tala nú ekki um í þessu tilfelli í næstu nágrenni höfuðborgarsvæðisins,“ segir Guðmundur. Guðmundur segir að Landvernd telji mál að linni. „Sveitarfélög eins og í þessu tilfelli Grindavíkurbær og önnur sveitarfélög verða að axla meiri ábyrgð á því skipulags og framkvæmdavaldi sem að þau hafa og gera náttúruvernd og þeim hagsmunum sem hvíla á náttúruverndinni mun hærra undir höfði en oft og tíðum er gert.“ 

Búa í haginn fyrir iðnað á svæðinu

Grindavíkurbær hefur skipulagt iðnaðarsvæði sem nær frá Eldvörpum og nánast alveg niður að sjó. Ásbjörn segir að bærinn sé að búa í haginn fyrir iðnað á svæðinu.„Þar gera þeir ráð fyrir að geti verið almenn iðnaðaruppbygging og svo uppbygging í beinum tengslum við orkuvinnslu á svæðinu og það er þá hugsanlega verið að nýta aðrar afurðir heldur en bara raforku frá viðkomandi virkjun, það er einnig verið að nýta gufu, vatn frá vatnsvinnslunni og nýta jafnvel gös og framvegis. Þannig að sveitarfélagið hefur staðið sig mjög vel í því að búa í haginn fyrir þann iðnað sem á að koma hérna.“

Framkvæmdir og fólkvangur fari ekki saman

Náttúruverndarsinnar hafa talað fyrir fólkvangi á svæðinu. Guðmundur segir að framkvæmdir og fólkvangur geti ekki farið saman. Til þess séu hagsmunirnir of ólíkir. „Þegar að þú ert að vernda eitthvað sökum náttúruverndnar er það gert á forsendum náttúrunnar til þess að vernda það sem er einstakt og sérstakt og það fer ekkert rosalega vel saman að eyðileggja það á sama tíma.“ 

Hvorki tími né peningar til að kæra

Tæplega 1.800 manns hafa skrifað undir áskorun um að leyfi til tilraunaborana verði afturkallað. Það var þó enginn sem kærði rannsóknarleyfið. „Því miður að þá kærðu engin umhverfisverndarsamtök þessa leyfisveitingu og í okkar tilfelli hjá Landvernd þá var það nú bara einfaldlega þannig að það gafst ekki fjármagn eða tími til þess að sinna þessu verkefni, það var mikið að gera á þessum tíma og ég hreinlega harma þá stöðu að við þurfum að vera í þeirri stöðu að geta ekki kært þetta,“ segir Guðmundur.