Sum orð eru sneidd aftan hægra

16.06.2017 - 16:14
Sigurbjörg Þrastardóttir er á útiskónum og veltir nú fyrir sér styttingu orða.

Sigurbjörg Þrastardóttir skrifar:

Góðir hlustendur, nú spyr ég svona almennt, ég hef ekkert ykkar sérstaklega í huga, þetta er bara svona inngangur, en mér datt í hug að segja: Hver kannast ekki við það að vera latur í tungurótinni, knappur á tíma eða óþolinmóður við að hlusta á eigin framsögn? Já, hver kannast ekki við það, og hver kannast ekki við trixið sem þá er algengt að nota? Að stytta orð eins og hægt er, samt þannig að þau verði áfram skiljanleg?

Angi af þessari tilhneigingu eru náttúrlega gælunöfn, sem eru í eðli sínu stytting á nöfnunum sem við heitum. Það er heill kapítuli út af fyrir sig, hvernig Sigurður verður Siggi, Jón verður Nonni (sem er nota bene ekki stytting, þannig að reglan er þegar farin út um þúfur), hvernig Guðmunda verður Búbba (þar er til dæmis bara einn bókstafur sameiginlegur) og hvernig Theódór verður stundum Daddi, stundum Teddi og stundum Dóri.

Erlend fórn-ar-lömb …

En þetta var útúrdúr, þannig séð. Ég er meira að hugsa um orð sem flytja merkingu í talmáli, sér í lagi nafnorð, og ég er með heimatilbúna kenningu sem ég get prufukeyrt. Hún gengur út á að lögreglumenn í glæpaþáttum, ekki síst enskumælandi þáttum, séu latari en margir aðrir þegar að því kemur að segja frá. Til þess að styðja þessa kenningu get ég nefnt að þótt ég horfi ekkert sérstaklega mikið á glæpó, veit ég samt að vic þýðir fórnarlamb/victim, perp þýðir perpetrator/gerandi, lab þýðir rannsóknarstofa/laboratory, feds eru federal agents/fulltrúar alríkislögreglunnar, pic þýðir picture/ljósmynd og þannig mætti áfram telja. Þetta er einhvers konar bransamál sem löggan (innskot: löggan þýðir lögreglan, klassísk stytting) hefur tileinkað sér, í það minnsta í sjónvarpi, og manni finnst maður næstum því harðsvíraður að kunna inn á þetta. En ástæðan er hugsanlega tvíþætt. 1) Það þarf að koma svo miklum tæknilegum upplýsingum til áhorfenda að það er ekkert pláss fyrir gauf  2) Styttingarnar endurspegla alvöru málsnið í raunheimi rannsakenda.

Önnur málsvæði taka það stundum upp hjá sjálfum sér að stytta ensk heiti, án þess endilega að fylgja þar enskum málfræðiviðmiðum. Þannig eru samfélagsmiðlar á Ítalíu til dæmis kallaðir i social, þar sem enska heitið social media hefur verið klippt í tvennt, social haldið eftir og á það settur fleirtölugreinir. Reality TV fékk með tímanum sömu meðferð, raunveruleikaþættir heita nú þar syðra reality. Merkingin er þar með einfaldlega raunveruleikinn, sem er að sjálfsögðu andstæðan við það sem hið svokallaða raunveruleikasjónvarp sýnir.

Skiljanleg hnatthlýnun

Og þetta leiðir okkur að svipuðum orðum í íslensku. Stundum mætti að ósekju stytta orð, ekki síst nýyrði, sem á fyrstu dögum lífs síns þurftu að ná yfir allt sem erlendu heitin fólu í sér. Ágætt dæmi um þetta er orðið raunveruleikasjónvarp, eða raunveruleikaþættir. Fyrir utan þversögnina sem orðið flytur, eins og áður sagði – því slíkum sjónvarpsþáttum er oftast leikstýrt í þaula – myndi sennilega ekkert skaða að segja bara veruleikasjónvarp, sleppa a.m.k. einum lið og stytta orðið. Eða hvað?

Gerðist ekki einmitt svipað með hugtakið „hnattræn hlýnun“, sem lengi vel var þýðingin á global warming? Einn góðan veðurdag sagði einhver einfaldlega „hnatthlýnun“, og allir skildu hvað um var rætt. Samfélagsmiðlar er annar langormur, þeir gætu líklega heitað „félagsmiðlar“, samt myndum við átta okkur á því við hvað væri átt. Og lífrænt ræktaður hlýtur einhvern daginn verða „lífræktaður“. Þannig mætti áfram huga að umbótum á langhundum sem eitt sinn voru settir saman af góðum hug. Það er að segja ef við erum svo gasalega löt að við nennum ekki að bera allt fram, eða – og þetta er betri ástæða – ef okkur finnst eins og einhverjir liðir hinna nýju orða séu óþarfir, ofsagðir. (Hér kemur til dæmis upp í hugann hið dáða orð kjölfestufjárfestir, og mætti sennilega efna til samkeppni um lagfæringar á því.)

Yfirleitt gerist þetta nú samt sjálfkrafa, eins konar þögult(!) samþykki myndast fyrir því að kasta burt lið, dæmi: alnetið/internetið, sem styttist á undraskömmum tíma í netið, veraldarvefurinn, sem smám saman þótti þjálla að kalla vefinn, og svipað virðist vera að gerast um þessar mundir með orðið farsími. Nú skoða allir allt „í símanum sínum“, það er óþarfi að taka fram í hvert sinn að þetta sé ekki gamli heimasíminn.

Geggt ves hjá fjöllunni

Þannig er nú þetta, góðir hlustendur, og þið þekkið áreiðanlega fjölda annarra dæma í kringum ykkur; sumir hafa áhuga á fuglaskoðun, aðrir fylgjast með hegðun skýja, og svo eru einhverjir sem gera styttingar nafnorða að áhugamáli. Og þetta er auðvitað heldur ekkert nýtt af nálinni, nöfn skóla og gatna hafa til dæmis verið stytt svo áratugum skiptir, Magga á Bræðró fór í Réttó en flutti svo til tengdó í Teigó þegar hún byrjaði í Versló …

Unglingar okkar tíma hafa svo tekið upp nýjar aðferðir við styttingar, þar kalla samskipti á smáum skjáum á útsjónarsemi; geðveikt verður geggt, væntanlega verður vænt, klukkutími verður klukkari eða klulli, fjölskylda verður fjölla og góða nótt verður gn. Við erum nefnilega ekki bara löt, skýringin getur líka verið að við séum uppfinningasöm, skapandi eða opin fyrir fjölbreytni. Ég fer hins vegar ekki ofan af þeirri kenningu að rannsakendur morðmála í amerísku sjónvarpi séu í fararbroddi þess sem við gætum, í ljósi samhengisins, kallað talmálsstyttingartilhneigingu. Og stytt það svo í talstyttingu. Eða málsveigingu. Góðar stundir.

 

Mynd með færslu
Halla Þórlaug Óskarsdóttir
dagskrárgerðarmaður
Víðsjá
Þessi þáttur er í hlaðvarpi