Suðurnesin eiga góða framtíðarmöguleika

16.02.2016 - 08:00
Erlent · Innlent · Evrópa · Suðurnes
OZZO
 Mynd: Reykjanesbær
Suðurnesin eru í 18. sæti af 74 á Norðurlöndum þegar lagt er mat á framtíðarmöguleika þeirra í atvinnumálum, íbúaþróun og efnahag. Ósló, Stór-Kaupmannahöfn og Stokkhólmur raða sér í efstu sæti nýrrar skýrslu um stöðu Norðurlandanna.

Stór-Reykjavíkursvæðið er í tíunda sæti á þessum lista sem birtur er í í dag í skýrslu sem var unnin á vegum Nordregio, Landfræðistofnunar Norðurlanda. Stóru borgarsvæðin búa þar yfir hvað mestum krafti og hafa líka mest aðdráttarafl segir Anna Karlsdóttir, sérfræðingur hjá Nordregio og einn af höfundum skýrslunnar The state of the Nordic Region 2016.  Atvinnuástand skipti miklu máli og það er gott á Íslandi í þessum samanburði. Staða Suðurnesja vekur nokkra athygli, ekki síst í ljósi umræðu hér heima síðustu misseri. 

 En ef maður skoðar Suðurnesjasvæðið út frá bæði nálægð við höfuðborgarsvæðið og íbúaþróun og íbúafjölda, þá er þetta svæði sem er mjög líklegt til þess að vaxa ásmegin líka bara í tengslum við ýmsa aðra hagþróun. 

Hún nefnir líka nálægð við alþjóðaflugvöll sem skipti máli og ný fyrirtæki sem tengjast lífhagkerfi og gætu orðið vaxtarbroddur til framtíðar á Íslandi.  Staða og horfur Suðurnesja hefur batnað miðað við úttekt sem gerð var árin 2010 til 2015 og eru þau eina svæðið á Íslandi sem svo er um. Önnur svæði á landinu eru í 26. til 41. sæti. 

Fljótsdalshreppur og Breiðdalshreppur eru meðal sjö sveitarfélaga á Norðurlöndum þar sem íbúum hefur fækkað hvað mest síðustu ár, en þar eru líka nefnd til sögunnar sveitarfélögin Loppa, Puumala og Hyrinsalmi í Norður-Finnlandi sem glíma við mikla fólksfækkun. 

Anna Kristín Jónsdóttir
Fréttastofa RÚV