Stóraukinn kvíði meðal barna

19.01.2016 - 20:23
Kvíði barna hefur stóraukist síðustu ár að sögn barnasálfræðinga. Of miklar kröfur séu gerðar til þeirra í skóla, tómstundum og félagslífi. Samfélagsmiðlar og tækninotkun barnanna og foreldra geri líðanina enn verri. Blása þurfi til vitundarvakningar meðal foreldra og leiðbeinenda barnanna til að sporna við vandanum.

Það er af sem áður var þegar grunnskólabörn voru dagskrárlaus frá því að skóladegi lauk rétt upp úr hádegi og þar til foreldrarnir komu heim úr vinnu. Nú eru flest yngri grunnskólabörn á frístundarheimilum fram eftir degi. Svo þurfa þau að sinna tómstundum og heimanámi.

Krefjandi að vera barn í dag

 „Almennt séð er mikið álag á börnum í skólanum. Þar er viðvarandi streita, verkefnavinna og félagslegar aðstæður geta verið krefjandi, mikið af börnum og svo eru áhugamál og annað. Það er krefjandi að vera barn í dag,“ segir Soffía Elín Sigurðardóttir barnasálfræðingur. Kvíði meðal barna hafi stóraukist síðustu árin. Samverustundum með fjölskyldunni hafi fækkað og snjalltæknibylting síðustu ára hafi stórskaðað þann tíma.

Gjörbreyttur heimur

Helga Arnfríður Haraldsdóttir barnasálfræðingur segir að oftar en áður fái þær til sín börn sem þjást af kvíða, jafnvel miklum kvíða. „Þetta utanaðkomandi álag veldur því að þau hafa minni tíma en áður til að leika sér,“ segir hún. „Þeim er mikið stýrt í skólanum og því sem þau eru að fara að gera. Þau fá mikil munnleg fyrirmæli og þau ráða ofboðslega litlu sjálf.“

„Þetta er allt annar heimur en fyrir 20 árum síðan,“ segir Soffía og bætir við að kvíði hjá barni sem ekki er meðhöndlaður geti á nokkrum árum þróast yfir í þunglyndi. Ef tómstundir eru teknar með sé dagskrá barna oft á tíðum þéttari en hjá hinum fullorðnu.

Kvíði getur þróast í þunglyndi

Kvíði hjá barni sem ekki er meðhöndlaður segja þær að geti á nokkrum árum þróast yfir í þunglyndi. Ef tómstundir eru teknar með hafi börn oft á tíðum þéttari dagskrá en hinir fullorðnu. „Það er álag yfir heimanámi og tæknilega er einbeitingin búin í lok skóladags þegar þau eiga að taka yfirvinnu með sér heim sem veldur álagi á fjölskylduna og dregur úr gæðastundum og samveru. Maður þarf að sýna þessu meiri skilning og ekki bara afskrifa þeirra vandamál sem aumingjaskap eða leti.“

Helga tekur undir þetta: „Það þarf að verða samstillt átak. Þetta er ekki sjúkdómur endilega. Barnið er að segja okkur að það þurfi að aðlaga eitthvað í umhverfinu.“

Mynd með færslu
María Sigrún Hilmarsdóttir
Fréttastofa RÚV