Stóra vandamálið að margir kæra ekki

Samráðshópur sem innanríkisráðherra fól að greina hvað má betur fara við meðferð nauðgunarmála hefur hafið störf. Hlutverk hópsins er að fara ítarlega yfir meðferð nauðgunarmála í réttarvörslukerfinu; sem dæmi hvað veldur því að margir þolendur kæra ekki og hvernig má skýra lágt ákæruhlutfall í þessum málaflokki? María Rut Kristinsdóttir fer fyrir hópnum.

María Rut hefur verið einn aðalskipuleggjandi Druslugöngunnar í þrjú ár og fylgst með og tekið þátt í fleiri byltingum á netinu sem hafa verið áberandi. „Seinustu ár hafa farið í að vekja máls á því að það sé í lagi að segja frá og koma þessum málaflokki upp á yfirborðið. Drusluganga hefur vissulega átt stóran þátt í því ásamt fleiri byltingum,“ segir hún. 

Nú er hins vegar komið að því að vinna að málaflokknum hinum megin við borðið, innan kerfisins. María Rut segir að vinna ráðuneytisins að umbótum í kynferðisbrotamálum hafi hafist árið 2010. „Framkvæmdar voru tvær rannsóknir í þessum málaflokki en það hefur oft verið erfitt að taka þátt í opinberri umræðu um kynferðisbrot, því það er svo lítið af gögnum sem hægt er að halda í og segja: þetta er svona.“

Rannsóknir á málaflokknum mikilvægar
Önnur rannsóknin er miðuð að einkennum kynferðisbrota, fjöldi þeirra og farvegur innan réttarvörslukerfisins. „Hin er megindleg, þar sem tekin voru viðtöl við 26 fagaðila sem vinna innan kerfisins, hvað má betur fara og svo framvegis,“ segir María Rut. Hlutverk hópsins verður meðal annars að vinna úr niðurstöðum þessa rannsókna, gera tillögur að úrbótum og aðgerðaráætlun til næstu fimm ára. 

 

Hvað er að kerfinu þegar kemur að nauðgunarmálum og kynferðisbrotum?
„Stóra vandamálið er það að of margir þolendur kæra hreinlega ekki brotið sitt. Við höfum heyrt í umræðunni að fólk treystir ekki kerfinu og þessi langa óvissa plagar fólk og það er mjög skiljanlegt. Þá er gagnlegt að geta skoðað það ferli skref fyrir skref, hvernig er það?“ 

María Rut segir að þolendum, sem hafa reynslu af kærumeðferð, finnist ekki erfiðast að taka ákvörðun um að kæra. „Það er miklu frekar þessi óvissa og upplifa það að vera ekki partur af þessu ferli, því brotaþolar eru ekki aðilar máls samkvæmt lögum. Kannski getum við líka endurvakið reisn þessa fólks, því fólk upplifir ekki reisn að fara inn og í gegnum kerfið. Það er líka, eins og ég segi, stórt vandamál að það koma ekkert allir inn í kerfið.“

 

Mynd með færslu
Björg Magnúsdóttir
dagskrárgerðarmaður
Síðdegisútvarpið
Þessi þáttur er í hlaðvarpi